23/8/2017

Verkís leggur til lausn í fráveitumálum á Þingvöllum

  • Þingvellir

Fráveitumannvirki á Þingvöllum anna ekki lengur því magni af skólpi sem fellur til á háannatímum ársins. Þetta kemur til vegna gífurlegrar fjölgunar heimsókna ferðamanna í þjóðgarðinn en þegar gengið var frá núverandi fráveitulausnum var ekki gert ráð fyrir að aukningin yrði svo mikil.

Brugðið var á það ráð að flytja stóran hluta af skólpinu með tankbílum til Reykjavíkur í losun. Því fylgir töluverður kostnaður og ljóst að mikilvægt er að finna lausn á málinu. Í ljósi þessa var Verkís falið að skoða fráveitumál á Þingvöllum og koma með hugmyndir að hugsanlegum úrbótum.

Verkís leggur til að skilvirkum hreinsibúnaði frá sænska fyrirtækinu Nordic Water verði komið fyrir á Þingvöllum sem mun leiða allt skólp í hreinsistöð sem uppfyllir sértækar hreinsikröfur fráveitureglugerðarinnar fyrir köfnunarefni og fosfór. Verkís kom með tillögu að staðsetningu og reiknaði stærð stöðvarinnar, kostnað, lagnaleiðir og kostnað við að leggja fráveitukerfi.

Lífríki Þingvallavatns er verndað með lögum enda er vistkerfi þess einstakt í veröldinni. Þingvallavatn er niturvana af náttúrulegum orsökum. Hlutfallið á milli fosfórs og köfnunarefnis í aðrennslisvatni Þingvallavatns gerir það að verkum að köfnunarefni klárast í vatnsbólum á undan fosfórnum sem dregur úr frumframleiðslu á svifþörungasvifi. Þetta veldur því að vatnið verður eins tært og blátt yfir sumarmánuðina og raun ber vitni.

Í tilviki skólphreinsunar fyrir ferðamannastaði við Þingvallavatn er mikilvægt að beina athyglinni að magni niturs í frárennslinu. Skólp inniheldur mikið magn lífrænna efna, næringarefna og örvera. Þrátt fyrir að áætlað magn þessara efna sé einungis lítill hluti af heildarinnstreymi næringarefna í Þingvallavatn af náttúrulegum orsökum geta þessi efni haft skaðleg áhrif á vistkerfi og lífríki í vötnum, ám og sjó. 

Það hefur nú þegar raskast í Þingvallavatni vegna ýmissa þátta og má leiða líkum að því að með auknum ferðamannafjölda á Þingvöllum geti óhreinsað og lítið hreinsað skólp hróflað við viðkvæmu jafnvægi vistkerfis Þingvallavatns. Því er mikilvægt að vandað verði vel til verks við hreinsun og losun frá fráveitumannvirkjum.

Umfjöllun Stöðvar 2 um málið