2/10/2017

Verkís leggur til leiðir til að draga úr umferðarhraða

  • Ísafjörður

Verkís hefur lagt til nokkrar leiðir til að draga úr hraða bílaumferðar í nokkrum íbúðagötum á Ísafirði. Í eldri hluta bæjarins eru götur sem ekki voru ætlaðar fyrir almenna bílumferð og er það upplifun vegfarenda að hraðinn sé of mikill, enda allri umferð blandað saman í þröngu rými.

Í minnisblaði Verkís um málið er fjallað um göturnar Brunngötu, Smiðjugötu, Tangagötu, Skipagötu, Silfurgötu og Þvergötu. Í flestum götunum er einstefna, allar eru þær aðþrengdar af íbúðahúsnæði og í öllum götunum er 30 km hámarkshraði. Minnisblaðið var kynnt á fundi umhverfis- og framkvæmdanefndar Ísafjarðarbæjar 12. september sl. 

Í tillögum Verkís eru lagðar til leiðir til að draga úr umferðarhraða og auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Hugað er að því að snjómokstri verði ekki gert erfitt um vik.

Hér má sjá tillögur Verkís en í minnisblaðinu er ítarlegri umfjöllun um þær:

  • Verkís leggur til að þriggja metra akrein verði afmörkuð með máluðum línum á vegyfirborðið á þeim götum sem eru jafn og stærri en 5 metrar að breidd.

  • Verkís leggur til að afmörkuð verði samhliða bílastæði meðfram akrein á völdum stöðum. Afmörkunin verði bæði með máluðum línum sem og blómakerum á hvorum enda.

  • Verkís leggur til að stæði og leiðir fyrir gangandi og hjólandi umferð verði afmarkaðar þar sem pláss er. Lagt er til að málaðar kantlínur akreinar muni afmarka svæðið að einhverju leyti.