28/11/2017

Verkís metur stærð hönnunarflóða fyrir norsku vegagerðina

  • Prestelvbrua

Verkís hefur frá síðustu áramótum unnið fjölda flóðamata fyrir norsku vegagerðina, Statens Vegvesen, auk þess að stærðarhanna brýr og ræsi og meta þörf á rofvörnum við þessi mannvirki.

Um er að ræða tveggja ára rammasamning sem hófst í byrjun árs. Öll verkefnin eru á svæðinu sem Norðmenn kalla „region midt“, en það eru fylkin Norður- og Suður-Þrændalög, Mæri og Raumsdalur.

Hvert verk sem Verkís tekur að sér í þessum rammasamningi felur í sér mat á stærð flóðs með 200 ára endurkomutíma. Að auki er mat lagt á hve miklu stærra slíkt flóð gæti orðið árið 2100 vegna hlýnunar jarðar. Slíkt flóð er einmitt hönnunarflóð sem norska vegagerðin notar fyrir brýr og ræsi. Ýmis teikn eru á lofti um að áhrifa hlýnunar jarðar á flóð sé þegar farið að gæta og svo virðist sem ákefð úrkomu á litlum svæðum hafi aukist á síðustu árum.

Óvissa er töluverð við mat á flóðum sem þessum, sérstaklega á svæðum þar sem engar mælingar eru til á rennsli. Því eru nokkrar mismunandi aðferðir notaðar við matið. Til viðbótar við flóðamatið sjálft metur Verkís nauðsynlega stærð brúarops eða ræsis fyrir viðkomandi stað auk þess að leggja mat á rofvarnir svo ekki grafist frá brúarstólpum eða ræsum.

Vinna sem þessi er mikilvæg fyrir rekstraröryggi vega en þeir eru mjög mikilvægir til að halda þjóðfélaginu gangandi.  Sumir vegir eru jafnvel eina leið fólks frá heimilum sínum og því mikilvægt að þeir haldist opnir og öruggir.

Verkefnin eru unnin af vatna- og straumverkfræðingum á samgöngu- og orkusviði Verkís. 

Myndin sem fylgir fréttinni er af Prestelv brúnni sem liggur yfir Prestelv í Stangvik, Surnadal kommúnu í Mæri og Romsdal.