27/6/2017

Verkís spilar stórt hlutverk í verkfræðihönnun við breytingar á Perlunni

  • Perlan

Í fyrra var farið af stað með umfangsmiklar endurbætur á Perlunni, einu þekktasta kennileiti Reykjavíkurborgar. Byggingin hefur fengið nýtt hlutverk og verður nú safn. Verkís sér um allar breytingar og standsetningu á byggingunni ásamt því að hafa umsjón með byggingarstjórnun á verktíma og ástandsmati á núverandi byggingu.

Perlan er einn mest sótti ferðamannastaður Reykjavíkur. Árum saman hafa staðið vatnstankar á hæðinni en árið 1991 var byggingunni breytt í veitingastað og kaffihús. Perlan er um það bil 3000 m² og er skipt niður í fimm gólffleti á sex hæðum með kjallara. Safnið sem nú hefur verið opnað í Perlunni mun hýsa sýningarnar Jöklar og íshellir, Stjörnuver, Landið, hafið og ströndin og Norðurljós.

Vinna Verkís við breytingarnar á Perlunni hefur verið margþætt og nær meðal annars til hönnunar burðarvirkja, lagna- og loftræsikerfa, rafkerfa, aðallýsingu og lýsingarkerfi í glerkúplinum á toppi byggingarinnar auk bruna- og hljóðhönnunar.

Nokkur verkefni sem Verkís leysti af hendi:

  • Einum tanki Perlunnar breytt í gerviíshelli og sýningu um sögu jökla á Íslandi. Hellirinn er á fyrstu hæð og sýningin á annarri hæð.
  • Gerð nýrrar hæðar í miðrými byggingarinnar fyrir sýningar og útgangur yfir brú frá tankinum og inn á aðra hæð. Nýja hæðin er á annarri hæð hússins.
  • Miklar breytingar á innréttingum á veitingastaðnum á fjórðu og fimmtu hæð.
  • Stjörnuver sem getur hýst að minnsta kosti 120 manns.