10/11/2017

Verkís tekur þátt í hönnun vistvænnar gestastofu

  • Gestastofa

Verkís hannaði rafmagn, gerði LCC greiningu, sá um brunatæknilega hönnun og aðstoðaði við lóðarhönnun við hönnun nýrrar gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri. Stofan er hönnuð af hönnunarteymi sem Arkís ehf. er í forsvari fyrir en þau eru einnig aðalhönnuðir gestastofunnar.

Bygging stofunnar er í áætlunargerð. Samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð skal starfrækja starfsstöðvar þjóðgarðsins á sex stöðum, þar með töldu Kirkjubæjarklaustri. Vonast er til þess að verkefnið verði boðið út fljótlega og að lokið verði við bygginguna 2019.

Byggingin verður 620 fermetrar á einni hæð, auk 145 m² kjallara eða samtals 765 m². Byggingin er hönnuð þannig að hún falli vel að og inn í landið og verði hluti af hólóttu landslagi lóðarinnar við Sönghól. Þak byggingarinnar er lagt með úthafatorfi af lóðinni.

Hægt verður að ganga upp á þak byggingarinnar og verður gönguleið á þakinu lögð með grassteini. Frá þakinu verður hægt að horfa yfir Kirkjubæjarklaustur, Landbrotið, Systrastapa, Skaftá, Síðuna, Núpana og yfir á Öræfajökul og ná þannig sjónrænni tengingu við Vatnajökulsþjóðgarð.

Byggingin verður starfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á vestursvæði hans með aðstöðu á aðalhæð fyrir upplýsingagjöf, sýningarhald, verslun, kaffihús, skrifstofu- og starfsmannaaðstöðu, geymslu og tæknirými í kjallara. Byggingin er hönnuð á grundvelli algildrar hönnunar. Hún verður hituð upp með orku frá varmadælu. Allt timbur utanhúss verður frá Suðurlandsskógum.

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008. Hann nær yfir allan Vatnajökul og stór svæði í nágrenni hans, þar á meðal þjóðgarðana sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Þjóðgarðurinn spannar tæp 14% af flatarmáli Íslands og er á meðal stærstu þjóðgarða í Evrópu.

Myndin sem fylgir fréttinni er birt með leyfi Arkís.