1/8/2017

Verkís tekur þátt í stærstu rannsókn í Surtsey frá upphafi

  • Rannsókn í Surtsey

Snorri Páll Snorrason, jarðfræðingur hjá Verkís, er kominn til Surtseyjar þar sem hann mun gegna hlutverki yfirjarðfræðings við borun í stærstu rannsókn í eyjunni frá upphafi. Ætlunin er að bora tvær holur og nýta gögnin til margvíslegra og flókinna rannsókna.

Verkefnið, sem kallast SUSTAIN, er unnið undir stjórn þeirra Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og Marie Jackson, dósents við Háskólann í Utah í Bandaríkjunum.

Til stendur að taka tvo borkjarna, 200 metra langan lóðréttan kjarna og kjarna úr 300 metra langri skáholu. Rannsaka á innri byggingu og þróun jarðhita í eyjunni sem dæmi um skammlíft jarðhitakerfi á rekbelti úthafsskorpu. Þá er einnig áformað að kanna tilvist og fjölbreytileika örvera við mismunandi hitastig í innviðum eyjunnar.

Snorri Páll mun taka við kjörnunum, koma þeim í kjarnakassa og ganga þannig frá að rannsóknarstofa, sem staðsett verður í Heimaey, geti tekið við þeim. Ef það koma upp vandamál við borunina mun Snorri Páll sjá um að taka ákvörðun um framhaldið. 

Í dag er unnið að því að ljúka við samsetningu borsins, líkt og sjá má á mynd sem fylgir fréttinni en því næst þarf að bora fóðurrör niður og steypa fast. Sólarhring síðar er hægt að hefja borunina.

Frétt Háskóla Íslands um verkefnið.