5/10/2017

Vilja tvö þúsund tonna laxeldi á Kópaskeri

Verkís hefur unnið skipulags- og matslýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi Norðurþings 2010 - 2030 og nýs deiliskipulags fyrir Norðurþing og Fiskeldi Austfjarða hf. Breytingarnar snúa að fyrirhuguðu fiskeldi á Röndinni á Kópaskeri.

Til þess þarf að skilgreina lóðina sem iðnaðarsvæði í stað afhafnasvæðis. Í dag er takmörkun á landnotkun þar sem svæðið er einnig skilgreint sem náttúruverndarsvæði á náttúruminjaskrá. Fjallað var um málið í kvöldfréttum Rásar 1 og Rásar 2 þriðjudaginn 3. október.

Fiskeldi Austfjarða vill byggja 200 fermetra þjónustuhús, kerjapall á landi um 5.200 fermetra að stærð og annað eins svæði til síðari stækkunar. Eldisstöðin verður á landi með allt að 16 kerjum sem geta framleitt um 2.000 tonn af laxi á ári.

Í frétt Rásar 1 og Rásar 2 var rætt við Gauk Hjartarson, skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings, sem sagði að kynningu á skýrslunni væri að ljúka. Gaukur sagðist jafnframt vera nokkuð bjartsýnn á að fiskeldi þetta verði að veruleika og að tillögur að skipulagi gætu verið tilbúnar til kynningar í nóvember ef allt gengur að óskum.