Sjálfbærnistefna

Sjálfbærnistefna

22.5.2018

Við sýnum aðgát og ábyrgð í störfum okkar og höfum jákvæð áhrif á samfélagið með gildi Verkís að leiðarljósi: Heilindi - Metnaður - Frumkvæði.

Sjálfbær þróun og nýting náttúruauðlinda
Við tökum tillit til umhverfisins í allri starfsemi og stuðlum að sjálfbærri þróun í samfélaginu. Við styðjum við náttúruvernd og skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og beitum þekkingu okkar með virðingu fyrir umhverfinu.
Við erum leiðandi á sviði vistvænnar hönnunar. Við úrlausn verkefna er leitast við að lágmarka umhverfisáhrif á framkvæmda- og rekstrartíma og bent er á umhverfisvæna valkosti ef mögulegt er.
Við förum sparlega með auðlindir og tökum tillit til umhverfissjónarmiða við kaup á aðföngum.
Við leggjum áherslu á að endurnýta, endurvinna og farga úrgangi á ábyrgan hátt.
Við erum meðvituð um þau fótspor sem starfsemin skilur eftir sig og leggjum okkur fram um að bregðast við með sjálfbærni að markmiði.

Lífvænlegt umhverfi og heilsusamlegur ferðamáti
Verkís vinnur að því að efla vitund starfsmanna um vistvænar og sjálfbærar samgöngur. Þannig er stuðlað að lífvænlegra umhverfi, heilbrigðari lífsháttum og minni mengun.
Starfsmenn eru hvattir til að tileinka sér vistvænan ferðamáta og við kaup á farartækjum Verkís er valinn vistvænsti kosturinn.
Við úrlausn verkefna er tekið tillit til gangandi, hjólandi og akandi vegfarenda svo og almennings­samgangna á framkvæmda- og rekstrartíma mannvirkis, auk þess sem orkunotkun er lágmörkuð. Við bendum viðskiptavinum á leiðir sem stuðla að betri nýtingu umferðarmannvirkja, farartækja og fækkun ferða. 

Komum heil heim
Við leggjum ríka áherslu á öryggi starfsfólks og samstarfsfélaga - allir eiga að koma heilir heim.
Við erum leiðandi í öryggis- og heilbrigðismálum á vinnustað, bæði á starfstöðvum okkar og á verkstað og stuðlum þannig að auknu öryggi í samfélaginu.
Við mótun mannvirkja, hönnun og undirbúning framkvæmda miða hönnuðir að því að mannvirki verði sem öruggast í byggingu og rekstri.
Starfsmönnum er lagður til allur nauðsynlegur öryggisbúnaður og rík áhersla lögð á að þeir fari eftir öryggisreglum á starfstöðvum Verkís og á verkstað. Sé aðbúnaði varðandi öryggi og heilbrigði á verkstað ábótavant ber starfsmönnum Verkís að hætta vinnu eða stöðva hana og benda á úrbætur. 

Persónuvernd
Persónuupplýsingar sem Verkís aflar geta varðað viðskiptavini, samstarfsaðila, starfsfólk og aðra sem Verkís á í samskiptum við. Okkur er umhugað um persónuvernd og lítum á vernd persónulegra upplýsinga sem grundvallarmannréttindi. Við virðum réttindi einstaklinga og upplýsingar sem Verkís aflar verða aldrei nýttar til að gera persónusnið. Við verndum þær upplýsingar sem okkur er trúað fyrir. 

Virðing fyrir mannréttindum og áhersla á gott siðferði
Við styðjum og virðum vernd alþjóðlegra mannréttinda í samræmi við Mannréttinda­yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, almenn viðurkennd viðmið og siðareglur Verkís og leggjum okkur fram um að vera í fararbroddi.
Við fylgjum almennri vinnulöggjöf um starfsumhverfi og vinnuvernd og virðum félaga‑frelsi og rétt til sanngjarnra launa. Við höfnum með öllu hvers konar misrétti og mann­réttinda­brotum, s.s. nauðungar-, þrælkunar- og barnavinnu og gerumst ekki meðsek um slík brot.
Við rekum starfsemina í samræmi við vandaða starfshætti og viðurkennd viðmið samfélagsins. Starfsfólk er upplýst um skyldur sínar og lögð er áhersla á að öruggur farvegur sé til staðar svo koma megi upplýsingum um óviðeigandi háttsemi á framfæri. 

Skuldbinding
Við einsetjum okkur að uppfylla ætíð viðeigandi kröfur um umhverfis- og öryggismál og að þróa og viðhalda vottuðu stjórnkerfi samkvæmt ISO 14001, ISO45001 og skuldbindingu okkar gagnvart viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgð okkar í samfélaginu (UN Global Compact). Rík áhersla er lögð á samráð og þátttöku allra starfsmanna.
Við vinnum stöðugt að því að bæta starfsemina með áherslu á að útrýma hættum og lágmarka áhættu auk þess að leggja ríka áherslu á ábyrga starfshætti og sjálfbærni.