Hótel

Hótel Saga

Hagatorgi 1 - 107 Reykjavík

 • Hótel Saga

Verkís annaðist verkefnastjórn og alla verkfræðihönnun.

Verktími:  2014 - 2018

Almennt um verkefnið: 
Verkís vann ástandsmat á Hótelinu árið 2014 og í framhaldi af þeirri skýrslu hófust viðamiklar endurbætur og endurnýjun á byggingunni.

Hótel Saga er 7 hæða hótelbygging með 8. hæðina að hluta til viðbótar, þar sem veitingastaður Grillið er. Gistiherbergi hótelsins eru 236 talsins. Hótelið, sem nú er rekið undir merkjum Radisson Blu, er staðsett við Hagatorg í hjarta Vesturbæjar Reykjavíkur, og var upphaflega reist af stórhuga bændum sem vildu tryggja sér góðan íverustað þegar þeir ráku erindi sín í höfuðborginni.

Byggingin hefur gengið undir nafninu Bændahöllin, sem jafnframt er nafnið á núverandi rekstrarfélagi hússins. Byggingin hýsir hótelstarfsemi ásamt ýmissi tilheyrandi þjónustu, eins og ráðstefnu og fundasali á 2. hæð, Mímisbar, veitingastaðina Mími á 1. hæð, sem er nýr veitingastaður, Súlnasal á 2. hæð, sem er veitinga- og veislusalur og Grillið á 8. hæð. Þá eru í húsinu kjötvinnslueldhús og líkamsræktarsalur í tengslum við hótelreksturinn, hárgreiðslustofa, rakarastofa, snyrtistofa og ýmsar skrifstofur bændasamtakanna. Á fyrstu hæð norðurbyggingar hafa þrjú rótgróin fyrirtæki verið að koma sér fyrir, Hið Íslenska Bókmenntafélag, Arion banki og Íslandspóstur.

Verkís hefur annast alla verkfræðiþjónustu tengda viðhaldi og endurbótum á sviði burðarvirkja, lagna-, vatnsúða og loftræsikerfa, rafkerfa, fjarskipta- og aðgangskerfa, lýsingarhönnun, hljóðvistarhönnun auk verkefnastjórnunar vegna framkvæmdanna.

Í ársbyrjun 2016 var skrifstofuhæð, á þriðju hæð norðurbyggingar, breytt og 27 ný herbergi útbúin þar. Verkís sá um hönnun og eftirlit. Í framhaldi af því verkefni var Verkís falið að hanna, verkefnisstýra og hafa eftirlit með endurnýjun neysluvatnslagna á hæðum 4, 5 og 6, (sem framkvæmt var samhliða uppbyggingu nýju herbergjanna á 3. hæð), uppgerð líkamsræktar í kjallara og uppbyggingu nýrrar kjötvinnslu í kjallara. Síðan hefur verkefnum fjölgað og er unnið markvisst að heildaruppgerð hótelsins í áföngum.

Á síðasta ári var Súlnasalur endurnýjaður ásamt fullkomnu eldhúsi en auk þess var nýtt bakarí útbúið inn af eldhúsinu. Súlnasalur er nú morgunverðarsalur hótelsins en er jafnframt leigður út fyrir ýmsa viðburði eins og árshátíðir, brúðkaupsveislur, erfidrykkjur, hádegisverðarboð fyrir hópa o.s.frv.

Á þessu ári hafa gagngerar endurbætur átt sér stað á gestamóttöku hótelsins á jarðhæðinni, sem er nú orðin björt og opin. Mímisbar var endurnýjaður og nýr veitingastaður opnaður. En að auki voru allir gluggar endurnýjaðir ásamt inngangshurðum.

Helstu verkefni frá 2016 eru eftirfarandi:

 • 27 ný hótelherbergi á 3. hæð norðurbyggingar. Lokið 2016.
 • Endurnýjun neysluvatnslagna á 4.-6. hæð. Lokið 2016.
 • Endurnýjun líkamsræktar í kjallara. Lokið 2016.
 • Múrviðgerðir og endurmálun utanhúss. Lokið 2016.
 • Loftræsikerfi - greining og uppfærsla. Lokið 2016/2017.
 • Ný aðaltafla fyrir rafmagnsdreifingu í húsinu. Lokið 2016.
 • Nýir stofnstrengir frá aðaldreifiskáp upp á hæðir. Lokið 2017.
 • Nýt kjötvinnsla í kjallara ásamt nýrri fituskilju í lóð. Lokið 2017.
 • Uppgerð leigurýmis 1. hæð norðurbyggingar (n-au) fyrir HIB. Lokið 2017.
 • Uppgerð Súlnasalar á 2. Hæð ásamt nýju eldhúsi. Lokið 2017.
 • Endurnýjun álgluggakerfis. Lokið 2017 og 2018.
 •  Uppgerð og endurnýjun hótelherbergja á 4. hæð suðurbyggingar. Lokið 2018.
 • Uppgerð og endurnýjun gestamóttöku á 1. hæð. Lokið 2018.
 • Uppgerð leigurýmis 1. hæð norður byggingar (n-v) – Íslandspóstur og Arion banki. Lokið 2018.