Íþróttamannvirki

Bláa Lónið heilsulind

Grindavíkurbraut 9 - 240 Grindavík

  • Blaa-Lonid

Verkís annaðist hönnun og ráðgjöf varðandi aðrennslislögn að baðlóni ásamt uppblöndunar- og dreifistöðvum, loftræsing, raf- og lýsingarkerfi, vatnsúðakerfi, hitakerfi, snjóbræðsla, vatns- og hreinlætiskerfi og burðarvirki stækkunar.

 Stærðir: 5.000 m2
 Verktími:  1987 - 2007

Almennt um verkefnið:
Bláa Lónið – Heilsulind er bað og heilsulind sem byggir á sérstöðu og eiginleikum jarðsjávar frá orkuveri HS Orku í Svartsengi. Heilsulindin er vel þekkt víðsvegar um heim og hefur meðal annars verið kosin besta náttúrulega heilsulind heims, einn af tíu ótrúlegustu baðstöðum heims og ein af 25 bestu heilsulindum í heimi.

Baðlónið var upphaflega myndað árið 1976 með affallsvatni frá orkuverinu í Svartsengi en árið 1998 var ákveðið að flytja það til og byggja varanlega aðstöðu á núverandi stað.  Á árunum 2003-2004 voru gerðar ýmsar breytingar á baðlóninu, m.a. var bætt við nuddaðstöðu, heitum fossi, gufubaði o.fl. Vegna mikillar aðsóknar og vinsælda heilsulindarinnar var ráðist í stækkun á árunum 2005-2007 þar sem búnings- og baðaðstaða var stórbætt. Bætt var við glæsilegum veitingasal, veislueldhúsi, fundar- og ráðstefnusölum og verslunar- og skrifstofusvæði stækkuð til muna.

Baðlónið er hitað upp með 160°C jarðsjó sem leiddur er eftir 800 m langri neðanjarðarlögn frá orkuverinu í lónið. Heitum jarðsjónum er síðan dælt í lónsjóinn í nokkrum brunnum dreifðum um lónstæðið. Í völdum rýmum heilsulindarinnar er sambland af náttúrulegri og vélrænni loftræsingu en þar sem álag er mjög mikið er eingöngu vélræn loftræsing. Húsnæðið er að stórum hluta hitað með gólfhitakerfi en til viðbótar er hitað með loftræsikerfum. Við stækkun heilsulindarinnar 2007 var vatnsúðakerfi sett upp í öllu húsinu.

Lýsingarhönnun Heilsulindarinnar hefur fengið mjög lofsamlega umfjöllun í fagtímaritum og var m.a. tilnefnd til Norrænu lýsingarverðlaunanna, en með lýsingunni er leitast við að draga fram arkitektúr byggingarinnar og skapa þægilegt umhverfi. Stjórnkerfi baðlónsins, loftræsingar, lýsingar og glugga eru útfærð með nokkrum sjálfstæðum PLC og EIB kerfum sem eru samtengd um netkerfi og tengd við kerfiráð (SCADA) um LAN staðarkerfi svæðisins.