Íþróttamannvirki

Fjölnota íþróttahús í suður Mjódd

ÍR

Verkís sér um forhönnun, er ráðgjafi verkkaupa, á fulltrúa í byggingarnefnd, vinnur alútboðsgögn og hefur umsjón og eftirlit með verkinu. 

Stærðir: 4.326 m², 1.260 m²
Verktími: 2017 - 

Almennt um verkefnið: 
Fjölnota íþróttahúsið verður rúmir 4.300 m² að stærð og hliðarbygging þess tæpir 1.300 m². Í íþróttahúsinu verður gervigrasvöllur sem uppfyllir kröfur KSÍ til 7-8 manna bolta og aðstaða til iðkunar frjálsra íþrótta í norðurenda hússins. Frjálsíþróttaaðstaða mun samanstanda af tartanbrautum og tveimur sandgryfjum til stökkæfinga ásamt aðstöðu fyrir hástökk og stangarstökk. Fjölnota íþróttahúsið verður upphitað á svæði frjálsra íþrótta, með loftræsikerfi, ofnum eða samspil á þessu tvennu. Svæði fyrir knattspyrnuiðkun verður ekki upphitað að öðru leyti en því að tryggður verður 5°C lágmarkslofthiti.

Húsið verður stálgrindarhús klætt með samlokueiningum með steinullareinangrun og steyptum spyrnuveggjum á austanverðri langhlið þess. Hliðarbyggingin verður upphituð með ofnum eða gólfhita. Neðri hæð hennar mun rúma ýmsa aðstöðu, m.a. geymslu, aðstöðu fyrir lyftingar, tæknirými, búningsklefa og salerni. Efri hæð hliðarbyggingar er að mestu opið rými fyrir utan einn afmarkaðan sal. Auk stiga milli hæða mun lyfta ganga milli efri og neðri hæðar hliðarbyggingar.

Yrsa Sigurðardóttir, byggingarverkfræðingur hjá Verkís, er formaður byggingarnefndar um svæði ÍR sem sett var á laggirnar í mars 2017. Vinna byggingarnefndar felst í umsjón með framkvæmdum við ný mannvirki á svæði ÍR í suður Mjódd. Um er að ræða stjórn hönnunar og uppbyggingu á fjölnota íþróttahúsi, parkethúsi og tengibyggingum. Byggingarnefnd ræður hönnuði til verksins og er þeim til ráðgjafar um útfærslur mannvirkja. Þá hefur nefndin umsjón með öllum útboðum á verklegum framkvæmdum. 

Fyrsta verk byggingarnefndar var að koma af stað vinnu við fjölnota íþróttahús sem áætlað er að verði fullklárað og rekstrarhæft í lok árs 2019. Þá var gerð ítarleg kostnaðaráætlun samhliða þeirri vinnu. Byggingarnefnd tók í framhaldinu ákvörðun um að bjóða verkið út í alútboði og var Verkís fengið til þess að útbúa alútboðsgögnin.

Verkið var boðið út í júlí á síðasta ári og tilboð opnuð í október. Í framhaldinu var ákvörðun tekin í borgarráði um að veita byggingarnefnd heimild til að ganga til samninga við lægstbjóðanda. Verkís mun verða ráðgjafi verkkaupa á framkvæmdartíma.

Verkís sér um forhönnun á húsinu ásamt Arkís arkitektum.

Heimsmarkmið

  • Heimsmarkmið 3
  • Heimsmarkmið 9