Íþróttamannvirki

Íþróttaaðstaða Þorlákshöfn

Hafnarberg 41 - 815 Þorlákshöfn

  • Ithrottamannvirki-Thorlakshofn

Verkís annaðist undirbúning, áætlanagerð og alla verkfræðilega hönnun, verkefnastjórn, framkvæmdaeftirlit, sérfræðieftirlit, mælingar, jarðtæknirannsóknir, gerð útboðsgagna og innkaup á sérhæfðum búnaði.

 Stærðir: 25x10,5m útilaug, 47m2 útivaðlaug og 110m2 innivaðlaug
 Verktími:  2006 - 2009

Almennt um verkefnið:
Byggð var steypt viðbygging, útisundlaug og nýr íþróttavöllur með tilheyrandi lóð og aðkomumannvirkjum við eldra íþróttahús.

Viðbyggingin, er að mestu leyti tveggja hæða en anddyri, móttaka, innilaug og gangur eru með tvöfaldri lofthæð. Anddyri viðbyggingarinnar liggur að og tengir við eldra íþróttahús. Á fyrstu hæð í viðbyggingunni eru anddyri, afgreiðsla og veitingasala. Þar er einnig innivaðlaug með leik­tækjum fyrir börn auk búningsklefa fyrir sundmiðstöðina og eimbaðs. Einnig eru þar búningsklefar fyrir íþróttavöllinn. Í kjallara er tæknirými sem hýsir hita- og tæknikerfi allra lauga sundmiðstöðvarinnar. Á annari hæð eru líkamsræktarsalir, heilsulind með aðstöðu fyrir sjúkraþjálfun og aðstaða fyrir starfsfólk. Í heilsulindinni er gufubað, eimbað, meðferðarherbergi, hvíldarstofa, móttaka, búningsherbergi og pottar með útsýni til sjávar.

Á útisvæðinu er sundlaug, vaðlaug, tveir heitir pottar, þar af einn ólgupottur, tvær rennibrautir, ein eldri 3 m há braut og ein ný 2,6m há fjölskyldubraut. Útisvæði lauganna er hellulagt með snjóbræðslu­kerfi á helstu göngusvæðum.

Íþróttavöllurinn er með hlaupabrautum úr gerviefni en knattspyrnuvöllur­inn er með náttúrulegu grasi. Vallarhús var byggt við völlinn með tækja­geymslu, salernum, miðasölu og aðstöðu fyrir starfsfólk.

Á lóðinni eru 46 malbikuð bílastæði, þar af tvö fyrir fatlaða auk 60 bílastæða á grasi.