Íþróttamannvirki

Sisimiut - Sundlaug inni í kletti

  • Sisimiut sundlaug

Verkís annast heildarráðgjöf verkefnisins, þ.e. alla frumhönnun með tengdum hagkvæmnisrannsóknum og bergtæknilegum greiningum og vinnur að gerð útboðsgagna fyrir verklegar framkvæmdir. Verkís er aðalráðgjafi verkefnisins. 

 Stærðir: 3.100 m2
 Verktími: 2017 - 

Almennt um verkefnið:
Sveitarfélagið Qeqqata stefnir að byggingu innisundlaugar sem verður sprengd inn í klett í bænum Sisimiut á vesturströnd Grænlands.

Verkís hefur annast heildarráðgjöf verkefnisins, þ.e. alla frumhönnun með tengdum hagkvæmnisrannsóknum og bergtæknilegum greiningum og vinnur nú að gerð útboðsgagna fyrir verklegar framkvæmdir. Verkís, sem aðalráðgjafi verkefnisins, hefur fengið Arkís arkitekta til samstarfs í verkefninu, en gert er ráð fyrir að framkvæmdin verði boðin sumarið 2018.

Hellirinn sem sprengja skal inn í klettinn er um 22 metrar á breidd, 15 metrar á hæð og 75 metrar á lengd. Hann mun rúma 25 x 12,5 m sundlaug með eins og þriggja metra háum stökkpöllum og vatnsrennibraut. Þá verður einnig 7 x 9 m heitavatnslaug til þjálfunar og endurhæfingar og tveir heitir pottar ásamt allri búnings- og baðaðstöðu fyrir 100 gesti. Aðstaðan er á þremur hæðum og er um 3.100 m2 að stærð. Við hönnun sundaðstöðunnar hefur verið lögð áhersla á gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða en í Sisimiut er nýbyggð miðstöð fyrir hreyfihamlaða í Grænlandi og kom Verkís einnig að hönnun hennar.

Aðeins ein 25 metra löng sundlaug er fyrir í Grænlandi og er hún í höfuðstaðnum Nuuk. Vegna skorts á sund- og kennsluaðstöðu hafa grænlensk börn meðal annars verið send til Íslands til að læra sund. Nýju sundlauginni er ætlað að spila stóran þátt í sundkennslu barna í sveitarfélaginu og í bænum Sisimiut sem er annar stærsti bærinn í Grænlandi með um 4.500 íbúa. Hefur sveitarfélagið stefnt að byggingu laugarinnar í fjöldamörg ár.