Samkomuhús

Harpa

Austurbakki 2 - 101 Reykjavík

  • Harpan

Verkís var aðalráðgjafi við undirbúning og húsráðgjafi til loka framkvæmda, annaðist gerð samninga, aðstoð vegna hljóð- og hljómburðarhönnunar, ýmis sérfræðiráðgjöf, hönnunarrýni og efnissamþykktir fyrir lagna-, loftræsi-, véla- og rafkerfi, verkeftirlit og úttektir.

 Stærðir: 28.000 m2
 Verktími:  2007 - 2011

Almennt um verkefnið:
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa við Austurhöfn, var boðið út í einkaframkvæmd um byggingu og rekstur af félaginu Austurhöfn sem er í eigu Reykjavíkurborgar og ríkisins. Samið var við Portus ehf. um verkið eftir útboð þar sem dæmt var á grundvelli heildargæða lausnar. Útboðsferlið hófst  með forvali á vormánuðum 2004 sem lauk með samningum í árslok 2005.

Framkvæmdir hófust í byrjun árs 2006 með þilrekstri og jarðvinnu og voru komnar á fullt skrið í byrjun árs 2007. Austurhöfn tók við verkefninu í lok 2008 eftir gjaldþrot Portus og samdi við aðalverktakann ÍAV um að ljúka verkinu.

Hönnunin er undir áhrifum frá náttúru Íslands og er meginhugmyndin að skapa kristallað form með fjölbreyttum litum sem gefa síbreytileg hughrif. Við hönnun Hörpu var lögð áhersla á fjölbreytileika og góða aðstöðu fyrir ýmiss konar tónleika og ráðstefnur. Hægt er að skilja að sali þannig að mismunandi starfsemi getur farið fram á sama tíma, án truflunar. Að auki eru mörg minni rými og fundarherbergi sem nýtast vel til funda- og ráðstefnuhalds.

Harpa er heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku Óperunnar, ásamt því eru veitingarstaðir, barir og verslanir auk aðstöðu til sýningarhalds af ýmsum toga. Bílahús með 530 bílastæðum er tengt Hörpu en mun tengjast víðar þegar hótel og önnur mannvirki rísa á svæðinu.