Samkomuhús

Sesseljuhús - fræðslusetur

Sólheimar - 801 Selfoss

  • Sesseljuhus

Verkís sá um tæknilega ráðgjöf fyrir allt húsið, alla verkfræðilega hönnun, samræmingu hönnunar og framkvæmdaeftirlit.

 Stærðir: 850 m2
 Verktími:  2001 - 2002

Almennt um verkefnið:
Sesseljuhús er fyrsta sjálfbæra byggingin á Íslandi og er húsið notað sem fræðslusetur fyrir umhverfismál og sýningarhús um vistvænar og sjálfbærar byggingar.  Auk þess er það notað fyrir ráðstefnur, fundi og námskeið og rúmar allt að 150 manns.

Burðarvirki hússins er úr timbri, þakið klætt torfi og er hluti hússins grafinn í jörðu og fylgir þannig landslaginu. Hönnunin tók tillit til aðstæðna til að bæta orkunýtni hússins og til að fella bygginguna inn í umhverfi sitt á sem bestan hátt. Önnur mál eins og hljóðvist, notkun dagsbirtu og heilsa hafa einnig verið samþætt í hönnunina. Nánasta umhverfi hússins var hlíft með því m.a. að halda umferð vinnuvéla í lágmarki. Uppgreftri var haldið í algjöru lágmarki og allur uppgröftur var endurnýttur.

Byggingarefni voru valin með áhrif þeirra á umhverfið „frá vöggu til grafar“ í huga.  Byggingartimbur var vandlega valið og límtrésbitar voru notaðir í burðinn. Húsið er klætt með rekavið frá Ströndum. Einangrun, gólfefni, málning og raflagnastigar voru einnig leyst með því að nota umhverfisvæn efni.

Sérstök áhersla var lögð notkun á jarðvarma, vatnsorku og sólarorku ásamt því að lágmarka orkunotkun allra kerfa. Upphitun er aðallega með heitu vatni og er vatnið endurnýtt af hverju kerfinu af fætur öðru til þess að hámarka nýtni þess. Loftræsingin er bæði náttúruleg og vélræn og hönnuð til þess að geta virkað bæði þegar fáir eru í húsinu og þegar húsið er fullnýtt og á sama tíma að lágmarka orkunotkun.

Sérstök áhersla var lögð á frárennslismál þar sem fyrsta náttúrulega hreinsivirkið á Íslandi er starfrækt á Sólheimum. Um er að ræða svokallað "tilbúið votlendi" sem er samsett úr nokkrum þrepum sem skilar skólpi staðarins hreinu frá sér að þeim loknum. Markmiðið er að skila öllu skólpi frá húsinu út í náttúruna, hreinu og án þess að valda nokkurri mengun.