Smáralind
Hagasmári 1 - 201 Kópavogur
Verkís annaðist fullnaðarhönnun, gerð útboðsgagna, yfirferð tilboða, hita-, vatns- og hreinlætiskerfi, vatnsúðakerfi, snjóbræðslu og loftræsingu, ÖHU eftirlit við byggingarstjórn.
Stærðir: 63.000 m2 gólfflötur og 250.000 m3 |
Verktími: 1999 - 2002 |
Almennt um verkefnið:
Smáralind var tekin í notkun árið 2001. Í húsinu eru verslanir, skrifstofur, kvikmyndahús, veitingastaðir, barnaaðstaða og skemmtigarður.
Lagnakerfi hússins eru með þeim umfangsmestu hér á landi. Í húsinu eru ríflega 30 loftræsikerfi og alls er blásið um 250m³/s af fersku lofti inn í bygginguna. Loftræsikerfin eru öll 100% ferskloftskerfi, þ.e. engin uppblöndun á sér stað í loftræsisamstæðum. Byggingin er fyrst og fremst hituð upp með loftræsikerfi. Ofnar eru þó við útveggi, hitalagnir eru í gólfi anddyra og hitablástur er við stórar hringhurðir við aðalinnganga. Þegar verslanir eru opnar og ljósin loga er hitamyndun mikil í húsinu og ekki þörf á annarri hitun yfir daginn. Gangstéttar, hluti af bílastæðum og bílapallur eru með hitalögnum til að bræða snjó og ís á veturna en svæðið er um 21.700 m2.
Húsið er að fullu varið fyrir bruna með vatnsúðakerfi sem hannað er með það í huga að bjarga mannslífum og verðmætum. Hvert rými hefur sérstakan rennslisskynjara sem tengdur er brunaviðvörunarkerfi hússins. Þannig má sjá á augabragði hvar kerfið hefur orðið virkt og gera má viðeigandi ráðstafanir. Öll hönnun vatns- og loftræsikerfa hússins miðaði við að þau þurfi að vera sveigjanleg til þess að takast á við þær sífelldu breytingar sem óhjákvæmilegar eru í verslunarmiðstöðvum.