Annar iðnaður

Saltverksmiðja Norðursalts

Reykhólar

  • Saltverksmidja-Nordursalts

Verkís annaðist hönnun suðukerfis, heitavatns- og sjávarlagna, saltpanna til þurrkunar pækils, loftræsibúnað, rafkerfi, lágspennudreifing, forritun stjórnkerfis, útboð og val á vél- og rafbúnaði.

 Stærðir: 70 kW uppsett rafafl
 Verktími:  2012 - 2013

Almennt um verkefnið:
Saltverksmiðja Norðursalts á Reykhólum var reist á árunum 2012 til 2013 og var formlega vígð þann 17. september 2013. Hönnun Verkís stóð yfir frá áramótum 2012-2013 og fram á sumar, auk þess sem Verkís veitti aðstoð við ræsingu búnaðar í lok sumars 2013.

Saltverksmiðjan hefur til afnota 36 l/s af 70-80°C heitu affallsvatni frá Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum, sem hingað til hefur verið fargað. Þetta vatn, auk 115°C vatns úr borholu sem nýtist til hitareglunar er notað til að sjóða sjó niður í pækil og þurrka pækil niður í salt. Suðutankur og eimsvali eru notaðir til að sjóða sjó við 50°C við 0,1 barabs (-0,9 barg) undirþrýsting. Undirþrýstingi er náð með vakúmdælum og er viðhaldið með því að þétta gufu sem myndast við suðu. Það er gert m.þ.a. sprauta köldum sjó yfir gufuna í eimsvalaturni sem stendur við hlið verksmiðjunnar. 15 l/s af sjó er dælt inn í eimsvalann. Hann hitnar upp í 35-40°C við að þétta gufuna og er þaðan dælt aftur út í sjó. Hluti sjávarins er hráefni notað til saltgerðarinnar. Sjórinn er soðinn með títanrörum sem 70-80°C hitaveituvatn rennur um. Við lágan þrýsting sýður sjórinn er hann kemst í snertingu við títanrörin.

Hitaveituvatnið sem kemur frá rörabúntunum í suðugeymi er nýtt frekar, ásamt blöndu við 115°C vatn úr borholu, til þurrkunar pækils og salts. Pækillinn er þurrkaður í pönnum, sem er haldið volgum með hitaveituvatni frá suðugeymi. Afgangurinn af heita vatninu er notaður með loftræsiblásurum og hitaelementum, sem blása volgu lofti yfir pönnurnar og inn í lokaþurrkunarklefa salts, þaðan sem saltið fer í umbúðapökkun. Orkan sem knýr ferlið í verksmiðjunni fæst þannig nær eingöngu úr affallsvatni sem áður var fargað eða úr 115°C hitaveituvatni. Rafmagn er einungis notað til að knýja dælur, loftblásara í loftræsistæðum, pökkunarvélar og til almennrar notkunar (húsrafmagn).

Engin mengun er því frá verksmiðjunni – þvert á móti mun hitastig affallsvatns frá Þörungaverksmiðjunni lækka talsvert frá því sem áður var.