Jarðvarmi

Gufustöðin í Bjarnarflagi: Nýr gufuhverfill

Reykjahlíð, Mývatnssveit

  • Bjarnarflag forsíðumynd

Verkís annaðist ráðgjöf og hönnun fyrir Landsvirkjun vegna endurnýjunar vél- og rafbúnaðar. Verkís sinnti verkeftirliti og kom að skipulagningu og samræmingu prófana og gangsetningar. 

Stærðir: 5 MWe og 40 GWh/ári
Verktími: 2017 - 

Almennt um verkefnið:
Gufustöðin í Bjarnarflagi í Mývatnssveit er elsta gufuaflsstöð landsins og var fyrst gangsett árið 1969. Gufuhverfill stöðvarinnar var smíðaður árið 1934 og notaður í sykurverksmiðju í Bretlandi áður en hann var tekinn í notkun í gufustöðinni, til að bæta úr brýnum orkuskorti á Norð-austurlandi á þeim tíma. Afl stöðvarinnar var upphaflega 3 MW og nýtir hún gufu jarðhitasvæðisins við Námafjall.

Árið 2001 sá Verkís um endurnýjun alls rafbúnaðar og stjórn- og varnarbúnaðar, hönnun, deilihönnun, val á búnaði, aðstoð við innkaup, umsjón með uppsetningu, tengingum og prófunum og ásamt heimamönnum um gangsetningu á gufustöðinni. Nánar er fjallað um þetta í annarri verkefnalýsingu.  

Loks kom að því að skipta þurfti út gufuhverflinum og kom Verkís fyrst að því verki snemma árs 2015 með gerð hagkvæmnisathugunar og síðar verkhönnuðarskýrslu. Þegar í ljós kom að hagkvæmni verkefnisins var með ágætum, var hafist handa við hönnun og gerð útboðsgagna og síðar verksamninga vegna endurnýjunar bygginga, rafbúnaðar og vélasamstæðu jarðgufustöðvarinnar. Byggingarverk fólst í jarðvinnu, endurgerð stöðvarhúss og byggingar spennaþróar. Rafbúnaðarverk fólst í lagningu og tengingu aflstrengs, uppsetningu spennis og smíði, uppsetningu og tengingu nýs rafbúnaðar.

Nýju vélasamstæðunni fylgdi jafnframt stjórnbúnaður en Verkís annaðist hönnun nýs stjórnbúnaðar fyrir gufuveitu og hjálparkerfi. Ennfremur annaðist Verkís hönnunareftirlit og samræmingu á milli verktaka, verkeftirlit á framkvæmdatíma og kom að skipulagningu og samræmingu prófana og gangsetningar stöðvarinnar.

Aðstæður í Bjarnarflagi eru þannig að vegna hita í jörðu er ekki hægt að leggja lagnir neðanjarðar. Því voru strenglagnir hafðar ofanjarðar og var strengjum komið fyrir í rörum til að verjast ágangi sólar, nagdýra og mannfólks. Rörin eru fest við niðurgrafnar steyptar undirstöður til að halda þeim í réttri legu og sett á þau lítil göt til að tryggja lágmarks loftflæði til kælingar.

Uppsett afl nýja hverfilsins er 5 MW.