Öryggismál

Listasafn Reykjavíkur

Tryggvagata 17 - 101 Reykjavík

  • Listasafn-Rvk

Verkís annaðist hönnun allra rafkerfa, framkvæmdaeftirlit, hönnun öryggiskerfis og brunaviðvörunarkerfis.

Verktími:  1996 - 1998

Almennt um verkefnið:
Verkefnið fól í sér hönnun rafkerfa fyrir Listasafn Reykjavíkur. Frá aðaldreifiskáp eru lagðar kvíslar að undirdreifiskápum sem síðan er dreift víðsvegar um húsið. Aðallagnaleiðir eru strengjastigar fyrir lágspennukerfi og lokaðir strengjabakkar fyrir smáspennukerfi sem staðsettar eru fyrir ofan niðurhengd loft, aðrar lagnaleiðir eru huldar eða innsteyptar pípulagnir.

Uppbygging safna- og sýningarlýsingar í sýningarsölum er með flúrperum sem grunnlýsingu og halógenperum fyrir áherslu og sýningalýsingu. Á göngum er notast við innfelda halógenlampa en gangarnir eru klæddir með svörtum járnplötum. Hönnun lýsingarinnar er þannig að hún fellur inn í umgerð hússins sem er gamalt vöruhús. Notað er EIB (Instabus) kerfi til stjórnunar á lýsingu í safninu.

Innbrotaviðvörunarkerfi er hannað með tilliti til þess að geymd séu verðmæti í safninu. Brunaviðvörunarkerfi er hannað fyrir allt húsið, sem er skipt upp í 60 svæði og eru þau vöktuð með þrem stöðvum. Í húsinu eru sjö skjástöðvar.

Áður en framkvæmdir við Listasafn Reykjavíkur hófust í Hafnarhúsinu var húsnæðið aðallega notað sem geymslur. Það tók tvö ár að breyta húsnæðinu þannig að í dag er komið safn sem hýsir meðal annars listaverk eftir ERRÓ og fleiri. Listasafnið er notað sem fjölnotahús þar sem eru meðal annars ráðstefnur og tónlistarviðburðir auk listaverkasýninga.