Vatnsveitur

Nesjavallaæð

Frá Nesjavallavirkjun til Reykjavíkur

  • Nesjavellir-jardvarmi

Verkís annaðist verkefnastjórn, fullnaðarhönnun, gerð útboðsgagna, yfirferð tilboða, jarðtæknilega hönnun, vélbúnað, burðarvirki og framkvæmdaeftirlit.

 Stærðir: 27 km og 1.600 l/s
 Verktími:  1987 - 1990

Almennt um verkefnið:
Nesjavallaæð er aðveituæð fyrir heitt vatn frá Nesjavöllum til Reykjavíkur, alls 27 km löng. Æðin er 800 mm og 900 mm víð og getur flutt allt að 1.600 l/s af 100°C heitu vatni. Undirbúningur framkvæmda hófst í ársbyrjun 1987 og var Nesjavallaæð formlega tekin í notkun árið 1990.

Æðin liggur frá 125 m og upp í 410 m hæð yfir sjávarmáli. Vatni er dælt frá Nesjavöllum í um 173 m.y.s. upp í geymi á Háhrygg í 410 m.y.s. Þaðan er sjálfrennsli að Reynisvatnsheiði skammt austan Reykjavíkur. Nesjavallaæð er hönnuð til að þola allt að 3,6 MPa hámarksþrýsting. Rennsli í æðinni er stjórnað frá Reynisvatnsheiði með það að markmiði að halda fastri vatnshæð í geyminum á Háhrygg.

Við hámarksrennsli tekur það vatnið um 2 klst. að komast frá Nesjavalla­virkjun til Reykjavíkur. Hitafall á leiðinn er þó aðeins um 0,4°C við hámarksrennsli og má einkum þakka það vandaðri einangrun og þeim mikla vatnsmassa sem fer um æðina. Hitafallið verður nokkru meira þegar rennsli er lítið, t.d. má búast við um 2°C hitalækkun þegar rennslið nemur um fjórðungi af flutningsgetu æðarinnar. Æðin er að stærstum hluta gerð úr stálpípu á stöplum sem einangruð er með steinull og klædd álkápu, en á köflum er pípan foreinangruð og niðurgrafin. Enda þótt varmatap í fulllestaðri Nesjavallaæð nemi um 3,4 MW, svarar það aðeins um 0,8% af þeim heildarvarma sem hún flytur og nýta má til hús­hitunar.

Þegar heitu vatni er fyrst hleypt á svo langa heitavatnsæð sem Nesjavalla­æð, lengist pípan um allt að 25 m.Til að mæta þessari hitaþenslu eru innbyggð í hana þenslustykki og þenslulykkjur. Æðin hvílir á sér­hönnuðum undirstöðum sem stýra hreyfingu hennar og halda pípunni jafnframt fastri í jarðskjálfta.