Jarðskjálfti á Suðurlandi árið 2008
Suðurland
Verkís annaðist skoðun á mannvirkjum, mat á tjóni og viðgerðarkostnaði.
Stærðir: 6,3 stig á Richter |
Verktími: 2008 |
Almennt um verkefnið:
Þann 29. maí 2008 reið jarðskjálfti yfir á Suðurlandi. Jarðskjálftinn olli umtalsverðum skemmdum á mannvirkjum á Selfossi, Hveragerði, Eyrarbakka og nærliggjandi byggðum. Vægisstærð skjálftans var 6,3 með upptök um 8 km norð-vestur af Selfossi. Jarðskjálftinn hefur svipuð einkenni og jarðskjálftarnir sem riðu yfir Suðurland í júní árið 2000.
Á upptakasvæðum skjálftans mældist yfirborðshröðun sem er talsvert umfram það sem gert er ráð fyrir við hönnun bygginga á svæðinu. Í Hveragerði mældist lárétt yfirborðshröðun um 0,66g (66% af þyngdarhröðun jarðar) og á Selfossi um 0,54g.
Strax eftir jarðskjálftann kom Verkís að öryggisskoðunum mannvirkja á svæðinu fyrir Almannavarnir. Í framhaldinu hófst tjónamat fyrir Viðlagatryggingu Íslands í sveitarfélaginu Árborg ásamt nærliggjandi sveitum, austan Ölfusár, sem og uppsveitum Árnessýslu. Verkís annaðist einnig tjónamat í Hveragerði, Ölfusi og á sumarhúsum. Um var að ræða fasteignir ásamt veitu- og brúarmannvirkjum. Tjónstilkynningar á svæðinu voru um 2.300. Matsmenn fyrirtækisins skoðuðu yfir 3.000 matshluta eða um 50% af öllum matshlutum svæðisins.