05/07/2018

Atli Svavarsson sendi flöskuskeytið frá landi

Atli Flöskuskeytið
Atli Flöskuskeytið

Atli Svavarsson, ellefu ára drengur í Reykjavík, Verkís og Ævar vísindamaður ákváðu að taka höndum saman og senda flöskuskeyti með mjög mikilvægum skilaboðum á haf út.

Atli leggur mikla áherslu á að týna rusl og hvetur aðra til að gera slíkt hið sama. Verkís hannaði og smíðaði skeyti og Atli og Ævar vísindamaður komu skilaboðum Atla fyrir í skeytinu. Flöskuskeytið er útbúið með GPS-staðsetningarbúnaði og gervihnattasendi sem gerir fólki kleift að fylgjast með ferðalögum þess.

Árið 2017 stofnaði Atli verkefnið #SaveTheWorld en það felst í því að fara út og tína rusl úr náttúrunni. Hann hafði horft á þátt í sjónvarpinu með pabba sínum þar sem Ævar vísindamaður sagði að ef allir legðu sitt af mörkum væri hægt að bjarga heiminum. Atli var því ekki lengi að finna gott nafn fyrir verkefnið sitt.

Það eru þeir Arnór Þór Sigfússon dýravistfræðingur, Ármann E. Lund vélatæknifræðingur og Vigfús Arnar Jósefsson vélaverkfræðingur sem hönnuðu og smíðuðu skeytið. Þetta er fjórða flöskuskeytaverkefni Verkís, en það fyrsta hófst snemma árs 2016 í samvinnu við Ævar vísindamann.

Atli Flöskuskeytið
Atli Flöskuskeytið