08/06/2021

Fann fjóra helsingja í Skúmey en sá fimmti er utan þjónustusvæðis

arnor-thorir-helsingjar2
Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur, fylgist grannt með helsingjumn

Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur, fylgist grannt með helsingjum sem bera GPS-senda vegna fuglarannsókna. Fuglarnir komu til landsins í apríl og fjórir þeirra dvelja í Skúmey í Jökulsárlóni. Sá fimmti er aftur á móti utan þjónustusvæðis.

Nýlega var rætt við Arnór í kvöldfréttum RÚV og sýnt frá því þegar hann fór að Skúmey með kíki til að reyna að koma auga á þau Stefaníu, Eivöru, Guðrúnu og Sæmund. Arnór vissi að þau væru í eyjunni vegna gagnanna sem sendar þeirra safna. Það er vart þverfótað fyrir fuglum í Skúmey í Jökulsárlóni enda eyjan friðuð og enginn fær að stíga þar fæti nema með sérstöku leyfi Vatnajökulsþjóðgarðs.

Fimmti helsinginn, Guðmundur, var merktur í Vestur-Skaftafellssýslu og er þar einhversstaðar á vappi, kominn upp í fjöllin. Hann er því kominn úr GSM-sambandi og því hafa gögnin úr sendinum hans ekki skilað sér.

„Akkúrat, utan þjónustusvæðis. En hann mun safna punktum í sumar og þegar hann kemst í símasamband vonandi seinna í sumar þá sendir hann okkur söguna frá því í sumar,“ sagði Arnór í samtali við RÚV.

Arnóri tókst að koma auga á allar fjórar gæsirnar í Skúmey og vinnur nú úr gögnunum. Kvenfuglarnir lágu allir á eggjum og Sæmundur var með konu sinni. Helsingjarnir fimm flugu allir til Skotlands eftir að þeir fengu GPS-sendi og dvöldu þar í vetur.

Aðspurður um hvers hann hafi orðið vísari með GPS-sendarannsóknum segir Arnór að í fyrrahaust, eftir að sendarnir voru settir á fuglana, hafi sést hvernig fuglarnir nýti landið í sýslunni, hvað þau hreyfa sig mikið og í hvernig beitiland þau fara, hvort þau eru mikið í villtum gróðri eða túnum.

Frétt RÚV: Leitin að Sæmundi, Stefaníu, Guðrúnu og Eivöru

Heimsmarkmið

arnor-thorir-helsingjar2
Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur, fylgist grannt með helsingjumn