06/04/2018

Í nógu að snúast í eftirlitsverkefnum hjá Verkís

Skarðshlíðarskóli
Yfirlitsmynd á verkstað, Skarðshlíðarskóli 3. mars 2018

Þessa dagana er Verkí með mörg áhugaverð eftirlitsverkefni í gangi. Á höfuðborgarsvæðinu má til að mynda nefna þrjú verkefni þar sem Verkís sinnir umsjón og framkvæmdaeftirliti.

Vesturbæjarskóli
Um er að ræða eftirlit með uppsteypu og fullnaðarfrágangi á viðbyggingu við Vesturbæjarskóla auk ýmissa breytinga á eldri byggingu; t.a.m á kaffistofu kennara og leikfimisal. Viðbyggingin er á þremur hæðum og verða þar m.a. kennslustofur, fjölnotasalur og aðstaða fyrir tónlistarkennslu.

Í heildina er stærð viðbyggingar rétt um 1.400 m2 og eru áætluð verklok um miðjan ágúst 2018. Uppsteypu er lokið, breytingum á leikfimisal er sömuleiðis lokið og hefur hann verið tekinn í notkun. Sem stendur er frágangur innanhúss í nýbyggingu í fullum gangi auk þess sem unnið er að ýmsum breytingum í eldra húsnæði.

Sólvangur – hjúkrunarheimili
Í Hafnarfirði rís nú nýbygging/viðbygging við Hjúkrunarheimilið á Sólvangi. Um er að ræða þriggja hæða byggingu auk kjallara, sem í verða 60 dvalarrými auk hreyfisalar. Stærð byggingarinnar er í heildina um 4.200 m2. Verkís sinnir framkvæmdaeftirliti og umsjón með uppsteypu, fullnaðarfrágangi og frágangi lóðar.

Áætluð verklok eru 17. nóvember 2018. Uppsteypa hófst um miðjan júlí 2017 og er langt komin, frágangur innanhúss og tilheyrandi lagnavinna er hafin og farið er að huga að frágangi hússins.

Skarðshlíðarskóli
Verkís fer með umsjón og framkvæmdaeftirlit með byggingu Skarðshlíðarskóla við Hádegisskarð 1 í Hafnarfirði. Um er að ræða eftirlit með uppsteypu hússins auk fullnaðarfrágangs að innan jafnt sem utan og lóðarfrágangi. Húsið er steinsteypt á tveimur hæðum og er í heildina tæpir 9.000 m2.

Byggingin samanstendur af sex samhangandi einingum sem hýsa munu grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla og íþróttahús. Verkefnið er áfangaskipt, fyrsta áfanga skal lokið 6. júní næstkomandi þannig að skólahald geti hafist komandi sumar. Áætluð verklok eru svo við lok þriðja áfanga, 15. júní 2020.

Uppsteypu fyrstu einingar er að mestu leyti lokið og frágangur innanhúss af stað þar, ráðgert er að umræddri einingu verði fulllokið næstkomandi sumar þannig að skólahald geti hafist. Unnið er að uppsteypu veggja fyrstu hæðar í tveimur öðrum einingum og þá er jarðvinna langt komin í þremur síðustu einingunum.

Skarðshlíðarskóli
Yfirlitsmynd á verkstað, Skarðshlíðarskóli 3. mars 2018