21/06/2022

Merktu tjaldsunga á lóð Verkís í Reykjavík

Tjaldur merktur á lóð Verkís
Tjaldur merktur á lóð Verkís

Einn ungi komst á legg hjá tjaldaparinu sem verpir á þaki Verslunarskóla Íslands í Ofanleiti, næsta húsi við Verkís. Upphaflega voru þeir líklega þrír en nú er unginn einn með foreldrum sínum. Hann var merktur sl. föstudag af þremur starfsmönnum Verkís.

Fyrr í sumar sögðum við frá því hér á síðunni að eftir nokkurra ára hlé lægi loksins tjaldur á hreiðri hjá nágrönnum okkar, á þaki fimm hæða húss. Ef þú misstir af fréttinni eða vilt rifja upp þá er hún hér.

Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur og sérlegur áhugamaður um fugla, tók eftir því að foreldrarnir voru farnir af þakinu og sá fjölskylduna á lóð Verkís. Óskaði hann eftir aðstoð samstarfsmanna við að ná unganum í háf svo hægt væri að merkja hann með stálmerki.

Tveir starfsmenn brugðust við kallinu og annar þeirra náði unganum eftir að hafa hlaupið dálítið um lóðina. Arnór merkti því næst fuglinn og kunnu foreldrarnir honum litlar þakkir fyrir. Þau flugu í kringum hópinn, kölluðu og kvörtuðu og voru fegin þegar unganum var sleppt aftur.

Árlega eru tugir eða hundruð tjalda merktir á Íslandi og er það aðallega gert til að afla upplýsinga um lífslíkur og dánartíðni en einnig til að kanna hvar þeir halda sig.

Heimsmarkmið

Tjaldur merktur á lóð Verkís
Tjaldur merktur á lóð Verkís