17/03/2020

Verkís vinnur úttekt á endurbótum á ofanflóðavörnum á Flateyri

Varnargarðar snjóflóð Flateyri
Varnargarðar snjóflóð Flateyri

Ofanflóðanefnd hefur óskað eftir því við Verkís verkfræðistofu að gera úttekt á mögulegum endurbótum á ofanflóðavörnum á Flateyri og að við þá úttekt verði einnig skoðaðir hugsanlegir varnarkostir vegna hafnarinnar.

Samhliða þessu mun Veðurstofan vinna að endurskoðun hættumats fyrir Flateyri.

Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri við Önundarfjörð að kvöldi 14. janúar sl. Annað þeirra féll úr Skollahvilft og hitt úr Innra-Bæjargili. Snjóflóðavarnargarðarnir í hlíðinni fyrir ofan Flateyri beindu báðum flóðum út í sjó en hluti flóðanna kastaðist yfir garðana. Þá féll einnig snjóflóð í Súgandafirði við Norðureyri um sama leyti.

Fyrir tuttugu og fimm árum, 26. október 1995, féll stórt snjóflóð úr Skollahvilft á byggðina á Flateyri. Flóðið féll að nóttu til og létu tuttugu manns lífið. Í kjölfarið var ákveðið að hefja uppbyggingu snjóflóðavarna á Íslandi á grundvelli nýrra áhættuviðmiða.

Fyrstu garðarnir til að rísa voru í hlíðinni fyrir ofan byggðina á Flateyri og var Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens, VST nú Verkís, fengin til verksins. Ráðgjafar VST í hönnun garðanna var NGI (Norges Geotekniske Insitut) og risu garðarnir árið 1997.

Varnargarðar snjóflóð Flateyri
Varnargarðar snjóflóð Flateyri