28/03/2022

Við þurfum að endurskoða hugmyndir okkar um fegurð

Ragnar Ómarsson
Ragnar Ómarsson

Sífellt fleiri leitast við að endurnýta skó og fatnað í stað þess að kaupa nýjan og henda þeim gamla. Það er jákvæð þróun en ljóst er að eigi markmið Parísarsáttmálans að nást þarf mannkynið að gera róttækari breytingar á hugsunarhætti sínum, venjum og neyslumunstri.

Þetta segir Ragnar Ómarsson, byggingafræðingur á byggingasviði Verkís í viðtali í sérblaði Fréttablaðins um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Hann segir brýnt að huga betur að kolefnisfótsporinu sem þegar er bundið í eldri mannvirkjum með því að nýta byggingarefnin í mannvirkjunum betur. Viðtalið birtist fyrst 29. febrúar 2020.

Kolefnislosun mannvirkja heldur áfram eftir að byggingu þeirra er lokið

„Byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir um 39 prósent af allri kolefnislosun mannsins á heimsvísu. Losunin er tvíþætt, annars vegar kolefnislosun sem er bundin í mannvirkinu sjálfu á byggingartíma þess og hins vegar losun vegna reksturs mannvirkisins á líftíma þess. Innbyggða losunin er það kolefni sem er losað við öflun hráefna og meðhöndlun og framleiðslu byggingarefna, flutning þeirra á byggingarstað, uppbyggingu mannvirkisins, niðurrif þess að loknum líftíma ásamt úrgangsmeðhöndlun og endurvinnslu,“ upplýsir Ragnar en kolefnið sem losnar við rekstur mannvirkis á líftíma þess, er til dæmis vegna loftræstingar, húshitunar, rafmagnsnotkunar og viðhalds mannvirkisins.

Í starfi sínu veitir Ragnar meðal annars ráðgjöf vegna sjálfbærni mannvirkja.

„Þar er horft til þriggja þátta: Vistvænnar hönnunar til að vega á móti umhverfisáhrifum mannvirkisins á líftíma þess, lífsferilsgreiningar til að draga úr fjárhagslegri sóun og samfélagsgreiningar til að viðhalda öryggi og þægindum notenda án þess að það bitni á umhverfi og fjárhag. Lífsferilsgreiningar snúast um að skoða hver séu umhverfisleg, fjárhagsleg og samfélagsleg áhrif vegna undirbúnings, uppbyggingar, afnota, viðhalds og niðurrifs mannvirkis á öllum líftíma þess,“ útskýrir Ragnar.

„Lykilatriði í allri áætlanagerð fyrir mannvirkjagerð er að áætla fyrir allan líftíma mannvirkisins, frá fyrstu hugmynd og þar til fyrirsjáanlegt sé að hætta þurfi notkun mannvirkisins,“ segir Ragnar og bendir á að það breyti allri hugsun við ráðgjöf um mannvirki og mannvirkjagerð. Mikilvægt sé að horfa lengra en aðeins til byggingar mannvirkja, þau lifi áfram og skoða þurfi áhrif þeirra fram í tímann.

„Gera þarf skýlausa kröfu um að byggingar endist í marga áratugi eða árhundruð til þess að draga úr hráefnavinnslu og minnka sóun á verðmætum,“ segir Ragnar.

Gera má ráð fyrir að endurnýjunarþörf mannvirkja sé á bilinu eitt til tvö prósent á hverjum tíma. Það þýðir að um það bil 98 til 99 prósent af öllum mannvirkjum eru gömul. Ragnar bendir á að stærsti vandinn hvað varðar umhverfisþáttinn sé vegna þeirra mannvirkja sem þegar hafa verið byggð, þar sé kolefnisfótsporið stærst.

„Það er hin eiginlega áskorun sem við stöndum frammi fyrir í dag. Það er tiltölulega auðvelt að ætla sér að gera ný hús betur úr garði en við gerum í dag en það er erfiðara að taka eldri húsin og breyta þeim þannig að þau dragi úr orkunotkun á notkunartíma þeirra. Í mannvirkinu er síðan bundið kolefni, kolefnisfótspor sem er fast í byggingarefnunum og við getum aldrei tekið til baka og því er það eina sem við getum gert að nýta gömlu byggingarefnin betur,“ segir Ragnar.

Þegar hús er komið á þann stað á lífsferlinum að það þjónar ekki lengur tilgangi sínum þarf að finna leiðir til þess að nýta mannvirkið á annan hátt eða nýta byggingarefni þess með öðrum hætti til að spara það bundna kolefni sem þegar er til staðar í húsinu.

„Þetta er það sem við þurfum að takast á við í æ ríkari mæli í okkar ráðgjöf hjá Verkís. Við verðum að beina sjónum okkar að því hvernig hægt sé að endurnota mannvirki og byggingarefni. Í flestum tilfellum er umhverfisvænna að viðhalda því sem til staðar er frekar en að taka það í sundur og nota byggingarefnin annars staðar eins og gert hefur verið til dæmis í landfyllingum,“ segir Ragnar.

Endurhugsa hugmyndir okkar um fegurð

Stærsti vandinn hvað varðar umhverfisþáttinn er vegna mannvirkja sem þegar hafa verið byggð. Þar er kolefnisfótsporið stærst.

Við þurfum ekki að sækja nýtt hráefni út í náttúruna

Að sögn Ragnars er einstaklingurinn fastur í fegurðarímynd sem bundin er við tæknilega fullkomnun þegar kemur að byggingum og innanstokksmunum þeirra sem veldur því að í dag sé of miklu af nýtanlegu byggingarefni hent. Fólk muni þurfa að tileinka sér annað hugarfar um fegurð og notagildi innanstokksmuna.

„Við viljum hafa borðplötur sléttar en þurfum kannski að sætta okkur við að þær verði ekki þannig í framtíðinni. Við þurfum að taka byggingarefni sem hefur verið notað í eitthvað annað og breyta því í borð. Við megum varla sjá rispu á einhverju og þá teljum við að það sé ónýtt. En það er það ekki, það er hægt að nota hlutina miklu meira og betur en við gerum,“ bendir Ragnar á.

Tvöfalt gler er einnota í þeim skilningi að þegar komin er móða á milli glerja hefur þéttingin á milli þeirra opnast og glerið er ekki einangrandi lengur.

„Hvað gerum við þá? Við fáum okkur bara nýtt tvöfalt gler, vegna þess að það gamla er ónýtt, segjum við. En það er ekkert ónýtt, þetta eru bara tvær skífur af gleri. Þetta getur jafnvel verið þykkt og efnismikið gler. Og slíkt gler er hægt að nota í meira en bara að bræða það upp og nota aftur sem gler,“ segir Ragnar.

Hann sér fyrir sér að með því að skera glerið til sé hægt sé að nota það í klæðningar eða jafnvel til að setja ofan á borðplötur til að gera þær sléttar á ný og draga þannig úr þörfinni fyrir að sækja stöðugt nýtt hráefni út í náttúruna.

Ragnar segir að aukin áhersla á sjálfbærni mannvirkja sé mikilvægt næsta skref í baráttunni við loftslagsbreytingar og telur að þar verði gífurleg hugarfarsbreyting á næstu áratugum.

„Ég sé fyrir mér að eftir einhverja áratugi verði nýtni talin eðlileg en stöðug endurnýjun verði litin hornauga – að henda gömlu og fá sér nýtt bara af því að það er orðið gamalt er úrelt afstaða.“

Heimsmarkmið

Ragnar Ómarsson
Ragnar Ómarsson