Samkomuhús

Þjóðleikhúsið

Hverfisgata 19 - 101 Reykjavík

  • Thjodleikhusid

Verkís annaðist fjarskiptakerfi, hljóðkerfi, lýsingu, sviðskerfi og stjórnkerfi.

 Stærðir: 6.300 mog 32.700 m3
 Verktími:  1990 - 

Almennt um verkefnið:
Þjóðleikhúsið er í eigu íslensku þjóðarinnar og var opnað árið 1950. Í dag hefur leikhúsið fimm aðskilin svið, Stóra sviðið sem tekur 505 gesti í sæti, Kassinn tekur 137 gesti í sæti, Kúlan sem er barnasvið og hefur pláss fyrir um 120 gesti, Brúðuloftið tekur 100 gesti í sæti og Leikhúskjallarinn tekur um 100-200 gesti í sæti. Á verkefnaskránni eru að jafnaði ný og eldri innlend og erlend verk, klassískar leikbókmenntir, söngleikir, barnasýningar og danssýningar. Árlegur fjöldi gesta sem leggja leið sína í Þjóðleikhúsið er um 111.000 manns. Stóra sviðið er hreyfanlegt snúningssvið og hannaði Verkís hljóð- og samskiptakerfi.

Meðal þeirra verkefna sem Verkís hefur komið að á síðustu árum er, endurnýjun lýsingar utandyra, endurnýjun allrar óbeinnar lýsingar innandyra, ný spennistöð og ýmsar breytingar á raflögnum og lýsingu vegna endurbóta í byggingunni. Nýlega hefur leiksviðið, trésmíðaverkstæðið, fundarsalurinn og ýmis önnur rými verið endurnýjuð. Árið 2012 var farið  markvisst í það verkefni að skipta út eldri lýsingu Þjóðleikhússins. Ákveðið var að nota ljóstvista (LED) við útskiptinguna, bæði vegna orkusparnaðar og til að losna við þann hita sem fylgdi glóðperunum.

Meðal þeirra verkefna sem nú er unnið að má nefna hönnun og útboðsgögn á lyftu fyrir fatlaða sem reisa á austan megin í byggingunni, breytingar á heimtaug og tillögur að lýsingu á byggingunni utandyra.