20/06/2019

Flutti erindi um þróun íslenskrar hljóðvistar

Lógó Internoise 2019
Lógó Internoise 2019

Steindór Guðmundsson, byggingar- og hljóðverkfræðingur á Byggingarsvæði Verkís, sótti ráðstefnuna Internoise í Madríd á Spáni í síðustu viku. Þar flutti hann erindi um íslenska hljóðvistarstaðalinn ÍST 45.

Um er að ræða árlega hljóðráðstefnu og taka yfirleitt vel rúmlega þúsund manns þátt í henni. Í ár voru flutt um 800 erindi, auk þess sem þar voru 80 veggspjaldakynningar og fjórir lengri fyrirlestrar.

Steindór flutti erindið The Acoustic Classification System in Iceland. 20 Years‘s Experience. Þar fjallaði hann um íslenska hljóðvistarstaðalinn ÍST 45 og tengingu hans við byggingarreglugerð. Staðallinn var fyrst kynntur fyrir byggingaryfirvöldum og byggingariðnaðinum á Íslandi árið 1998 sem staðalfrumvarp.

Fyrsta útgáfa ÍST 45 kom síðan út 2003 og verulega aukin og endurbætt útgáfa kom út 2011. Núgildandi byggingarreglugerð frá 2012 vísar í ÍST 45 varðandi lágmarksgæði hljóðvistar. Þar segir að hljóðflokkur C í staðlinum skilgreini lágmarksgæði hljóðvistar fyrir ný hús. Núgildandi endurbætt útgáfa af staðlinum ÍST 45 kom síðan út 2016.

Staðallinn ÍST 45 skilgreinir þrjá gæðaflokka fyrir gæði hljóðvistar, A, B og C. Á Íslandi hefur nánast eingöngu verið notaður lágmarks-hljóðflokkurinn: Flokkur C. Flokkur B hefur örlítið verið notaður en flokkur A er ónotaður. Þetta er mjög svipað og fram kom í samsvarandi erindi frá Noregi. Hins vegar hefur hljóðflokkur B töluvert notaður í Svíþjóð, og í ýmsum öðrum löndum eru fleiri flokkar notaðir en lágmarksflokkurinn.

Steindór segir að fróðlegt hafi verið að heyra um reynslu annarra þjóða og einnig til dæmis að fylgjast með stöðunni á vinnu með alþjóðlegan staðal sem væntanlega mun leysa af hólmi alla þessa þjóðlegu staðla innan skamms.

Þjónusta Verkís á sviði hljóðtækni. 

Lógó Internoise 2019
Lógó Internoise 2019