Verkefni

Tunguhverfi –
innri hluti

Verkís vinnur að deiliskipulagsvinnu fyrir innri hluta Tunguhverfis í Skutulsfirði, sem er liður í markvissri stefnu Ísafjarðarbæjar um að auka framboð íbúðarlóða og styðja við sjálfbæra uppbyggingu byggðar.

Verkefnið er í vinnslu og byggir á frumdrögum sem kynnt voru í apríl 2025. Skipulagstillaga hefur ekki enn litið dagsins ljós.

Í upphafi verkefnisins var ráðist í víðtæka greiningarvinnu sem styður við faglega ákvarðanatöku í hönnunarferlinu. Meðal annars hefur verið unnið að fornleifaskráningu, greiningu á vindálagi og skuggavarpi, flóðamati, drónamælingum og mati á byggingarhæfi. Veðurvaktin vann greininguna á vindálagi, en aðrar greiningar voru unnar af Verkís. Markmiðið er að tryggja að byggðin falli vel að landslagi og náttúrulegum aðstæðum, og stuðli að öruggu, aðlaðandi og heilbrigðu nærumhverfi.

Frumhugmyndir gera ráð fyrir lágreistri og fjölbreyttri íbúðarbyggð með áherslu á gönguvæna hönnun, græn svæði og tengingar við útivistarsvæði í Tungudal, svo sem golfvöll, gönguleiðir og skíðasvæði. Blágrænar ofanvatnslausnir eru hluti af skipulagshugmyndunum, og aukið vægi er lagt á að móta manneskjulegt og barnvænt umhverfi.

Verkís sinnir allri skipulagsgerð, greiningarvinnu og umhverfismati verkefnisins auk kynningarefnis og samráðs við íbúa og hagaðila. Gert er ráð fyrir að tillaga að deiliskipulagi verði kynnt síðar á árinu 2025 og taki gildi árið 2026.

Verkefnið í hnotskurn

Staðsetning:

Ísafjörður

Verktími:

2024–2026

 

Heimsmarkmið