02/01/2023

50 börn frá Úkraínu nutu góðs af söfnun Verkís

Hér má sjá nokkur barnanna sem fengu styrk .

Í sumar hafði Volodymyr Privizentsev, starfsmaður Verkís í Georgíu til margra ára, samband við Verkís til að kanna hvort starfsfólk fyrirtækisins gæti aðstoðað hann við mikilvægt verkefni. Þrír mánuðir voru liðnir frá því að stríðið hófst í Úkraínu og hafði Volodymyr verið að aðstoða flóttafólk sem kom frá Mariupol í Úkraínu til Georgíu. Málefnið stóð honum nærri því hann er fæddur í Mariupol og þaðan flúðu foreldrar hans í sumar eftir að hafa dvalið í kjallara húss síns í þrjár vikur.

Volodymyr hefur aðstoðað flóttafólk sem komið hefur frá Mariupol til Georgíu með því að hafa milligöngu um vinnu og safnað peningum í sínu nærumhverfi til að hjálpa þeim sem eru í mestum vandræðum. Vegna þessa bað hann starfsfólk Verkís um aðstoð, hvort við hefðum áhuga og tök á að leggja til peninga í söfnun.

Starfsfólk Verkís lagði rúmlega 252 þúsund krónur til söfnunarinnar. Með þeirri upphæð var hægt að styrkja átján börn úr fimmtán úkraínskum fjölskyldum, aðallega frá Mariupol sem fluttu til Tblisi í Georgíu og dvöldu þar í sumar. Verkís lagði þar að auki hálfa milljón til söfnunarinnar og var hægt að styrkja 32 börn með þeirri fjárhæð.

Heimili flestra barnanna voru eyðilögð í stríðinu og eiga þau ekki afturkvæmt. Sumar fjölskyldurnar ætla að hefja nýtt líf í Georgíu en aðrar stefna til annarra landa og en dvelja tímabundið í Tbilisi.

Volodymyr segir að hjálpin sem barst frá Verkís og starfsfólki hafi komið á hárréttum tíma og komið í hlut þeirra sem voru í mikilli neyð. Hann þurfti að velja úr umsóknum sem bárust um aðstoð og voru það barnafjölskyldur sem fengu styrki þar sem sá hópur er í afar viðkvæmri stöðu þegar stríð geisar. Börnin sem fengu styrk fengu hvert og eitt um 100 evrur, eða rúmlega 14 þúsund íslenskar krónur og kom skýrt fram að styrkurinn væri frá starfsfólki Verkís og Verkís.

Volodymyr er afar þakklátur Verkís og starfsfólki þess sem lagði hönd á plóg.

Hér má sjá nokkur barnanna sem fengu styrk .