13/03/2018

Aðgengisverðlaun Reykjavíkurborgar

Aðgengisverðlaun Reykjavíkurborgar
Hlutu aðgengisverðlaun Reykjavíkurborgar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, afhenti Aðgengisverðlaun Reykjavíkurborgar í ár á málþingi Öryrkjabandalagsins í gær.

Í frétt Reykjavíkurborgar segir að þær Áslaug Katrín og Berglind hafa látið sig aðgengismál varða með ýmsum hætti og upp úr standa tvö veigamikil verkefni sem þær hafa átt frumkvæði að.

Fyrra verkefnið er Algild hönnun umferðarmannvirkja – samanburður á norrænum hönnunarreglum, ítarlega úttekt á hönnunarreglum og stöðlum sem lúta að algildri hönnun í útiumhverfi í Svíþjóð, Danmörku og Noregi.

Seinna verkefnið, Hönnun fyrir alla í útiumhverfi – handbók, sem styðst við hið fyrra og snýr að gerð handbókar sem löguð er að íslenskum aðstæðum um hönnun fyrir alla í útiumhverfi, þar með talið samgöngumannvirkjum eins og bílastæði fyrir fatlað og hreyfihamlað fólk.

Í rökstuðningi með viðurkenningunni segir: „Það er mikill ávinningur í því fólginn fyrir skipulagsyfirvöld, hönnuði og framkvæmdaraðila að hafa samræmdar leiðbeiningar um góða hönnun sem tekur tillit til allra sem njóta og nýta manngert umhverfi. Því er mikilvægt að veita þeim  viðurkenningu sem stuðla að bættu aðgengi af eigin frumkvæði og um leið hvetja fleiri til dáða. Áslaug og Berglind eru því vel að Aðgengisviðurkenningu Reykjavíkurborgar komnar og þær eru öðrum góð fyrirmynd þegar kemur að því að bæta hag og aðstæður fólks svo að allir geti notið sín í því fjölbreytta samfélagi sem við viljum búa í“.

Áslaug Katrín og Berglind kynntu fyrir gestum hvernig kröfur og leiðbeiningar um bílastæði eru í aðgengishandbók sinni.

Aðgengisverðlaun Reykjavíkurborgar
Hlutu aðgengisverðlaun Reykjavíkurborgar