Akurey – Sjálfvirkalestarkerfið virkaði hnökralaust
Akurey AK 10, ísfisktogari HB Granda, fór í sinn fyrsta túr í síðustu viku eftir að sjálfvirkt lestarkerfi var sett í skipið og millidekkið innréttað. Verkís vann að hönnun stýringa, forritun og gagnsetningu kerfisins fyrir Skagann 3X. Samskonar kerfi var komið fyrir í Engey RE, systurskipi Akureyjar, á síðasta ári.
Haft er eftir Eiríki Jónssyni, skipstjóra Akureyjar AK, á vef HB Granda að fyrsta ferðin hafi gengið mjög vel. Hann segir að skipið og búnaðurinn hafi staðið fyllilega undir væntingum. Ég lít svo á að með tilkomu þessara nýju skipa þá höfum við tekið stökk inn í nýja öld,“ sagði Eiríkur.
Eiríkur segir að þó að þetta hafi verið fyrsta ferð skipsins eftir að nýja búnaðinum var komið fyrir væri þetta ekki eiginleg veiðiferð. „Við erum fyrst og fremst að prófa allan búnað sem sést best af því að af 18 manns um borð eru átta tæknimenn,“ sagði Eiríkur.
„Það hefur lítilræði komið upp varðandi aðgerðaraðstöðuna á millidekkinu en sjálfvirka lestarkerfið hefur virkað hnökralaust. Tölvubúnaður og stýringarnar í brúnni eru aðalmálið. Það tekur tíma að læra fullkomlega á þennan búnað og í raun má segja að ég sé sestur aftur á skólabekk,“ segir Eiríkur en skipið kom til hafnar á laugardaginn.