29/04/2019

Arnór og Sjókallinn komnir til landsins

Gæsir
Gæsir

Frá árinu 2016 hefur Verkís fylgst með ferðum grágæsa til að safna upplýsingum um farleiðir þeirra, vetrarsetu, náttstað og í hvernig gróðurlendi þær sækja. Tvær gæsir eru á lífi og hafa báðar skilað sér til landsins til sumardvalar.

Gæsirnar eru merktar og bera GPS/GSM senda sem senda reglulega frá sér merki. Merkingarnar eru liður í rannsóknum á gæsum og er verkefnið unnið í samstarfi við Náttúrustofu Austurlands og Wildfowl and Wetland Trust.

Önnur gæsin, Arnór, lenti við Fagurhólsmýri 9. apríl eftir um tuttugu klukkustunda flug í einum rykk frá Tay Firth í Skotlandi. Þar hefur hann varið stórum hluta vetrarins. Arnór var merktur á Blönduósi í júlí 2018.

Arnór er þriðja gæsin sem ber sendinn en hinar tvær fyrri hétu Linda og Linda Björk. Linda var skotin í Skagafirði 2016, haustið eftir að hún var merkt og var sendirinn þá settur á Lindu Björk á Blönduósi 2017. Sendirinn fannst í Langadal haustið 2017 en ekki er vitað hvort Linda Björk hafi fallið þá þó það sé líklegt.

Því næst var sendirinn settur á Arnór. Hann flaug til Skotlands síðasta haust eftir að hafa dvalið á miklum veiðislóðum á Suðurlandi og sloppið þaðan lifandi. Nú er Arnór kominn á Norðurlandið ásamt maka sínum þar sem þau dvelja með öðrum gæsum á túni við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi.

Hér má sjá Arnór (til hægri með sendinn um hálsinn) og maka hans á túni á Blönduósi um helgina. Jón Sigurðsson á Blönduósi fylgist grannt með fuglunum og tók myndirnar sem fylgja fréttinni. Á myndinni má sjá að maki Arnórs er heldur bústnari en hann, enda er hún nú að búa sig undir að liggja á eggjum.

Sjókallinn kom til landsins 6. apríl sl. Hann er frá Norðfirði og fór beint á heimaslóðir þegar hann kom til landsins. Í vetur dvaldi hann á Orkneyjum þar sem náttaði yfirleitt á eyjunni Wyre en varði dögunum í beit á túnum og ökrum nærri Tingwall (Þingvellir). Hann gerði það sama síðasta vetur, var meira og minna á sömu slóðum en kom til landsins viku seinna en í ár.

Tilgangur merkinganna er að fylgjast með ferðum grágæsa, hvar farleiðir þeirra liggja og hvar þær eyða vetrinum. Auk þess að skrásetja ferðir gæsanna þá fást upplýsingar um hvernig gróðurlendi þær sækja á mismunandi tímum árs og hvert þær leita í náttstað.

Gæsir
Gæsir