Bílakjallari við nýja Landspítalann
Bílakjallari við nýja Landspítalann. Verkís sér um alla verkfræðihönnun vegna bílakjallara við nýja Landspítalann og leiðir vinnu hönnunarteymis vegna fullnaðarhönnunar kjallarans.
Skrifað hefur verið undir samning á milli NLSH og Verkís, Batterísins og T.ark um fullnaðarhönnun á bílakjallara við nýjan Landspítala. Bílakjallarinn mun rísa undir Sóleyjartorgi, austan við meðferðarkjarnann.
Bílakjallarinn er hugsaður eingöngu sem þjónustustæði fyrir ökutæki sjúklinga, aðstandenda og gesta spítalans og verður tæplega 7.000 m². Um er að ræða 200 bílastæði og má líkja honum við bílakjallarann í Hörpu sem er á tveimur hæðum. Gengið verður beint inn í sjúkrahúsið úr bílakjallaranum í sjálfvirka stiga, lyftur eða göngustiga. Þess má geta að einnig verður byggt á svæðinu 550 stæða bílastæðahús.
Forhönnun bílakjallarans liggur fyrir og verklok eru áætluð í byrjun árs 2022. Gert er ráð fyrir að uppsteypa kjallarans sé samhliða uppsteypu meðferðarkjarnans og uppsteypunni sé að fullu lokið 2023.