10/07/2019

Dempar gróður hljóð?

Dempar gróður hljóð?

Dempar gróður hljóð? Hávaði, eða óæskilegt eða skaðlegt hljóð, er talið vera eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum nútímans. Þó að hávaði sé ekki lífshættulegur getur hann haft mikil áhrif á heilsu okkar og lífsgæði. Við erum sífellt að verða meðvitaðri um þetta og í kjölfarið hefur umræða um hljóðvist í fjölbýli orðið háværari.

Þau sem búa við stórar umferðaræðar þekkja vandamálið mjög vel.
Ekki er hægt að eiga eðlilegar samræður við fólk utandyra þegar umferðarhávaði fer yfir 60 dB.
Við þessar aðstæður fer hljóðeinangrun glugga að skipta miklu máli.

Stærð umferðaræða er ef til vill huglæg og ber að setja í samhengi við annað umhverfi í nágrenninu. Sæbraut er stór umferðaræð í stærsta þéttbýli á Íslandi en 24 þúsund bílar fara um nyrsta hluta Kringlumýrarbrautar niður við Sæbraut á sólarhring.

Hávaðavarnir í formi hljóðmana eða hljóðveggja rísa víðsvegar til þess að skýla íbúum frá umferðarhávaða.
Virkni þessara hljóðvarna byggist á því að þær séu af hentugri hæð, séu samfelldar og eins nálægt uppsprettu hávaðans og kostur er.
Sú hugmynd að það sé vænlegt að gróðursetja tré og runna til að skýla sér fyrir hávaða er rótgróin og bjargföst.
Það er hins vegar, að mati höfundar þessa pistils, hugmynd sem ætti að rífa upp með rótum og gleyma hið snarasta. Lóðréttur gróður dempar ekki hljóð að neinu ráði.

Hér skal þó nefna að höfundur er alls ekki á móti gróðursetningu trjáa eða lagningu grass við vegi. Gróður hefur ýmsa kosti og eiginleika sem við viljum gjarnan nýta. Gróður sem slíkur er hins vegar ekki þeim kostum gæddur að dempa hljóð á áhrifaríkan hátt.

Til þess að hægt sé að taka gáfulegar og vel upplýstar ákvarðanir þegar kemur að hljóðvörnum í þéttbýli þarf að fara með rétt mál og bera réttar staðreyndir á borð svo að áhrifin verði þau sem lagt er upp með í hönnun.

Dempun vegna gróðurs er sett fram sem dempun í dB per 100m (dB/100m) og til þess að gera málin snúnari þá er dempun vegna graslendis eða trjágróðurs háð tíðni en einnig fjarlægðar milli uppsprettu og viðtakanda. Til þess að áætla dempun vegna graslendis miðað við harða jörð, má nýta sér eftirfarandi jöfnu:

Agras=0,18*log(f)−0,31*r [dB]

þar sem f er sú tíðni sem á við og r er fjarlægð á milli uppsprettu hljóðsins og viðtakanda. Fyrir trjágróður þá gildir eftirfarandi nálgun fyrir skógarþykkni:

Askógur=0,01(f)1/3r [dB]

Til þess að gera langasögu stutta þá er útkoman í hnotskurn þessi:

Undir 70 m fjarlægð milli uppsprettu og móttakanda er hægt að líta fram hjá þeirri aukadempun sem gróður kann að gefa. Hún hefur ekkert hagnýtt gildi. Á þeim stuttu vegalengdum sem eru milli götu og húsveggja í þéttbýli dempast hljóð vegna gróðurs afskaplega lítið miðað við flatlendi sem ekkert dempar (t.d. malbik eða gangstétt), dempunin er svo lítil að eyrað nemur engan mun á því að hafa harða jörð eða gras.

Einnig er tilgangslaust að planta niður trjám með því markmiði að dempa hljóð, til þess hafa tré því miður enga hagnýta eiginleika. Höfundur mælir frekar með að trjám sé plantað til ánægju og yndisauka og með það að markmiði að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu.

Verkís býður öfluga ráðgjöf á sviði hljóðvistar, bæði innanhúss sem utan. Hafðu samband ef þú þarft á okkur að halda.

Dempar gróður hljóð?