04/11/2018

,,Ég vil að flöskuskeytið fari til Svalbarða"

Capture sorp
capture

Nú eru fjórir mánuðir liðnir síðan Atli Svavarsson sendi flöskuskeytið frá landi og fylgist hann spenntur með.

Undanfarna mánuði hefur dagurinn hans Atla byrjað á þeim nótum að koma sér í brækurnar, fá sér morgunkornið og síðan tékka á staðsetningu flöskuskeytisins sem nú er búið að vera í hafi í um fjóra mánuði.

Lengi framan af olli það Atla miklum heilabrotum af hverju flöskuskeytið hringsólaði austur af landinu, en við glöddumst feðgarnir þegar það tók strikið í austurátt.

„Ég vil að flöskuskeytið fari til Svalbarða,“ segir Atli. „Eða að það fari til Noregs þar sem Böggi og stelpurnar hans búa.“ Hér vísar Atli til þess að föðurbróðir hans býr í Bergen, ásamt sinni fjölskyldu eða þeim Elsu, Andreu og Írisi.

Atla finnst líka mjög merkilegt að plast sem lendir í sjónum við Ísland geti farið svo langt sem raunin er – en skeytið hefur ferðast á fjórða þúsund kílómetra og sýnir engin merki um að taka land.

Núna virðist skeytið hætt við landtöku í Noregi og stefnir aftur í norður.

Í sumar var Atli mjög upptekinn á námskeiðum og ferðalögum. Það var samt hægt að plokka og tók Atli sig til og plokkaði á nokkrum ferðamannastöðum á Norðurlandi, þar sem fjölskyldan gisti í um vikutíma. Eins er plokkað þar sem við berum niður – og þá bara týndir upp smáhlutir sem verða á vegi okkar.

Við Atli erum annars hressir með eitt og annað. Nú berast fréttir af því að stór verslunarfyrirtæki ætla að hætta að nota plastpoka. Það finnst Atla frábært.

En þegar að skeytinu kemur þá hefur Atli áhyggjur af því hvort rafhlaðan muni endast nógu lengi – sérstaklega hafa þessar pælingar tekið sig upp núna þegar skeytið virðist á norðurleið og ekkert land sjáanlegt.

Það má bæta því við að endingu að Atli sækir það nú fast að fjölskyldan heimsæki landið þar sem skeytið kemur á land – skiptir þá engu máli hvort það verður Noregur – og þá helst Svalbarði, Færeyjar eða Skotland.

Capture sorp
capture