15/08/2019

Ekki vitað hvort grágæsin þolir veiðiálagið

Tíu íslenskar grágæsir bera tæki sem senda staðsetningu þeirra í rauntíma með SMS. Tuttugu til þrjátíu heiðagæsir úr íslenska stofninum eru með slíka senda.

Arnór fór að fylgjast með varpárangri gæsa þegar hann vann hjá Veiðistjóraembættinu árið 1993 og síðan Náttúrufræðistofnun frá 1995. Hann hætti þar og lagðist verkefnið af í tvö ár þar til Arnór tók upp þráðinn að nýju 2003 og mældi ungahlutföll byggt á vængjasýnum af veiddum gæsum og öndum. Það gerði hann þangað til í fyrra. Einnig skoðaði hann ungahlutfall hjá blesgæs á vettvangi. Veiðikortasjóður styrkti verkefnið.

„Ég hætti alveg í fyrra því ég fékk ekki lengur styrki í verkefnið. Síðan er í raun ekkert vitað um ungaframleiðsluna. Það er komið mikið af breskum grágæsum á vetrarstöðvarnar á Bretlandseyjum. Þeir geta ekki greint hverjar eru breskar og hverjar íslenskar og því er ekkert að marka ungahlutföllin þar varðandi íslenska stofninn,“ sagði Arnór í samtali við Morgunblaðið.

Talningar benda til þess að grágæs hafi fækkað á Bretlandi. Erfitt er að túlka það því ungahlutfallið hér er ekki lengur vitað. „Síðasta áratug síðustu aldar fækkað grágæs og hún lenti á válista. Þá var ungahlutfallið í veiðinni um 40% af meðaltali. Eftir aldamótin fór grágæsastofninn að styrkjast þegar ungahlutfallið fór yfir 45% að meðaltali. Það virðist eins og ungahlutfallið þurfi að vera nokkuð yfir 40% til þess að stofninn standi undir veiðiálaginu,“ sagði Arnór einnig.

Náttúrustofa Austurlands merkti fimm heiðagæsir með sendum í samvinnu við Arnór. Einnig settu Bretar senda á heiðagæsir. „Þá komu í ljós náttstaðir sem menn höfðu ekki vitað um. Gæsir þar hafa ekki verið taldar og stofninn gæti því hafa verið vantalinn,“ sagði Arnór í samtali við Morgunblaðið.

Hér er hægt að fylgjast með íslensku grágæsunum.

Eldri fréttir um verkefnið: 
Aldursgreiningu á gæsavængjum hætt
Ný þekking á háttalagi gæsa vegna kortlagningu ferða þeirra

arnór gæs merkingar
664d3c4e