13/01/2023

Endurbætt hönnun snjóflóðavarna á Flateyri

Skjáskot úr myndskeiði úr hermilíkani. Í fréttinni eru tvö myndskeið þar sem hönnunarflóð með um 1000 ára endurkomutíma fellur úr upptakasvæðunum, Skollahvilft og Innra-Bæjargili.

Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við endurbættar snjóflóðavarnir á Flateyri í sumar. Tillaga Verkís gerir meðal annars ráð fyrir að reistar verði þrjár keiluraðir ofan núverandi leiðigarða og þvergarður milli leiðigarðanna hækkaður. Fram undan eru skil á skýrslu vegna snjótæknilegrar hönnunar og við tekur landmótun mannvirkja og umhverfis, jarðtæknileg hönnun og útboð framkvæmdar. Á myndskeiðum í fréttinni má sjá niðurstöður úr hermilíkani, þar sem hönnunarflóð með um 1000 ára endurkomutíma, þ.e. reiknað er með að komi á 1000 ára fresti, fellur úr upptakasvæðunum.

Þegar hefur verið ráðist í nokkur verk tengd framkvæmdinni. Haustið 2021 var flóðrás meðfram leiðigarði undan Innra-Bæjargili dýpkuð. Sumarið 2021 voru styrkingar fyrir glugga- og dyraop í tveimur húsum við Ólafstún hannaðar og samtal átt við íbúa um útfærslur. Sumarið 2022 voru settar upp snjósöfnunargrindur og veðurstöð á Eyrarfjalli, ofan Flateyrar í tilraunaskini. Fylgst verður með virkni þeirra í þrjá vetur. Veðurstofa Íslands hefur sett upp nýjan radar á leiðigarðinn undan Skollahvilft sem mælir hraða flóða sem falla úr gilinu, annan radar við höfn sem nemur flóð sem falla úr nokkrum giljum við Flateyri og snjódýptarmæla í Innra-Bæjargil og Miðhryggsgil.

Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri við Önundarfjörð að kvöldi 14. janúar 2020. Annað þeirra féll úr Skollahvilft og hitt úr Innra-Bæjargili. Snjóflóðavarnargarðarnir í hlíðinni fyrir ofan Flateyri beindu báðum flóðum út í sjó en hluti flóðanna kastaðist yfir garðana. Kristín Martha Hákonardóttir, snjóflóðaverkfræðingur, hefur leitt hönnun endurbættra snjóflóðavarna á Flateyri. Fjöldi innlendra og erlendra sérfræðinga á þátt í þeirri vinnu sem m.a. fólst í umfangsmiklum líkanútreikningum. Fundir með íbúum Flateyrar og fulltrúum Ísafjarðarbæjar hafa verið haldnir reglulega, þar sem farið hefur verið yfir stöðu verksins til þess að tryggja gagnsæi og skilvirkt upplýsingaflæði.

Hér má sjá tillögur Verkís:

  • Reistar verði þrjár keiluraðir ofan núverandi leiðigarða til þess að draga úr flóðhraða í bæði iðufaldi og þéttum kjarna áður en flóð lendir á leiðigarði og aðskilja iðufald og þéttan kjarna í flóði.
  • Þvergarður milli leiðigarða verði hækkaður og endurbyggður brattur með lítillega breyttri legu, til þess að draga úr hættu á yfirflæði.
  • Móta flóðrásir við báða leiðigarða, til þess að auka virka hæð leiðigarða og tryggja óhindrað rennsli snjóflóða meðfram görðunum og út í sjó.
  • Byggja lágan en brattan leiðigarð ofan hafnar til þess að beina flóðum frá höfn.
  • Setja upp um 2 km af snjósöfnunargrindum á Eyrarfjalli, til þess að draga úr tíðni flóða í byrjun vetrar úr upptakasvæðunum og þannig draga enn frekar úr hættu í byggð vegna iðufalds.
  • Styrkja glugga- og dyraop sem snúa upp í hlíð, í öllum húsum á áhættusvæði B, með áherslu á hús efst á hættusvæðinu.

Á myndunum hér fyrir neðan hafa varnarvirkin verið sett ofan á punktský af Flateyri, sem mælt var og myndað í júlí og ágúst 2020. Ráðgerð landmótun til að draga úr sýnileika þeirra og mótun útivistarsvæðis hefur ekki verið færð inn á myndirnar. Myndirnar sýna ásýnd frá Brimnesvegi og Hafnarstræti.

Séð frá Hafnarstræti.
Séð frá Brimnesvegi.

Á myndskeiðunum hér fyrir neðan má sjá niðurstöður úr hermilíkani, þar sem hönnunarflóð með um 1000 ára endurkomutíma fellur úr upptakasvæðunum. Stærstu þekktu flóð sem fallið hafa úr Innra-Bæjargili og Skollahvilft eru með um 100-150 ára endurkomutíma og féllu 1953 og 1995. Á fyrri myndbandinu er hermt flóð úr Skollahvilft og í því síðara úr Innri-Bæjargili.

Á myndböndunum eru sýndir útreikningar á flóði a) án allra varna (lengst til vinstri), b) með núverandi varnargörðum og c) fyrirhuguðum vörnum (lengst til hægri). Svartar línur sýna útlínur stærstu flóða sem fallið hafa á Flateyri fyrir tilkomu varna (til vinstri) og með núverandi görðum (miðju mynd). Jafnáhættulínur CB (rauð), BA (blá) og A0 (gul) marka snjóflóðahættusvæði á Flateyri: Jafnáhættulínur Veðurstofu Íslands frá 2004 án varna (til vinstri), frá 2020 með núverandi görðum (miðju mynd) og tillaga Verkís, 2023 (til hægri).

Hönnunarflóð úr Skollahvilft

Stærsta þekkta flóð sem fallið hefur úr Skollahvilft féll 1995, útlínu þess má sjá á myndinni til vinstri. Næst stærsta flóð úr Skollahvilft féll í janúar 2020, eftir tilkomu varnargarðanna og er útlína þess sýnd á miðju mynd.

Hönnunarflóð úr Innri-Bæjargili

Stærsta flóð sem þekkt er að fallið hafi úr Innra-Bæjargili féll 1953, útlínu þess má sjá á myndinni til vinstri ásamt útlínum annarra stórra flóða frá 1974 og 1972. Næststærsta þekkta flóð úr Innra-Bæjargili féll í janúar 2020, eftir uppbyggingu garðanna og er útlína þess sýnd á miðju mynd.

Skjáskot úr myndskeiði úr hermilíkani. Í fréttinni eru tvö myndskeið þar sem hönnunarflóð með um 1000 ára endurkomutíma fellur úr upptakasvæðunum, Skollahvilft og Innra-Bæjargili.