22/05/2019

Endurheimt votlendis í Úlfarsárdal gengur vel

Verkís kolefnisjafnar með endurheimt votlendis
Endurheimt votlendis í Úlfarsárdal

Endurheimt votlendis í Úlfarsárdal gengur vel. Fyrsta áfanga í endurheimt votlendis á 87 hektara svæði í Úlfarsárdal í þeim tilgangi að binda kolefni í jörðu er lokið.

Verkið tókst vel til og eins og sjá má á myndum sem fylgja fréttinni er svæðið strax fullt af vatni og lofar góðu hvað varðar endurheimt votlendis. Heldur meira vatn er á svæðinu en gert var ráð fyrir í upphafi.

Verkís vann úttekt á svæðinu fyrir um þremur árum og skilaði skýrslu þar sem lagðar voru fram nokkrar leiðir við endurheimt votlendis á svæðinu. Þegar Reykjavíkurborg hafði ákveðið að fara af stað með endurheimt kom landslagshönnuður hjá Verkís að verkefninu með það að markmiði að svæðið nýtist sem útivistarsvæði í framtíðinni, m.a. með hönnun tjarna. Verkís vann magntöku og útboðsgögn og annaðist eftirlit með framkvæmdinni. Þannig kom Verkís að verkefninu á öllum stigum þess.

Í skýrslu sem Verkís vann fyrir Reykjavíkurborg um verkefnið kemur fram að á umræddu 87 hektara svæði í Úlfarsárdal er gróft áætlað að endurheimta megi votlendi á um 75% svæðisins. Áætlað er að verkefnið í heild bindi um 400 tonn af kolefni í jörðu sem nemur meðalakstri um 150 bíla á ári.

Fyrsta skóflustunga að verkefninu var tekin í lok apríl að þessu ári. Svæðið sem um ræðir er á norðurbakka Úlfarsár frá sveitarfélagmörkum við Mosfellsbæ í austri að vegi niður að Víðimýri í vestri. Í fyrsta áfanga verkefnisins var tíu hektara svæði næst sveitarfélagsmörkunum við Mosfellsbæ tekið fyrir.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá muninn á svæðinu sem tekið var fyrir í fyrsta áfanga verkefnisins, fyrir og eftir. Efri mynd frá 6.
júlí 2018, áður en verkefnið hófst. Neðri mynd frá 21. maí 2019, þegar fyrsta hluta var lokið. 

Verkefnið mikilvægt í baráttunni við loftlagsbreytingar

Með því að stífla eða moka ofan í framræsluskurði má endurheimta votlendi sem áður var raskað og í leiðinni byggja upp svæðið sem friðland og útivistarsvæði með fjölbreyttum möguleikum til umhverfisfræðslu og útivistar.

Svæðinu í Úlfarárdal var raskað með framræslu og ræktun túna um og eftir miðja síðustu öld og er í dag að mestu notað sem beitarland fyrir hross. Við það að landið blotni aftur upp á nýtt við lokun skurða verða margvíslegar breytingar. Votlendisgróður tekur við af þurrlendisgróðri og samsetning fuglafánunnar breytist, en fuglalíf í Úlfarsárdal er nokkuð fjölbreytt.

Kolefnisbúskapur svæðisins breytist í kjölfar endurheimtar. Þegar votlendi er ræst fram og þurrkað líkt og gert var í Úlfarsárdal, fer það að losa kolefni á formi gróðurhúsalofttegunda en við endurheimt snýst þetta ferli við og binding kolefnis hefst að nýju. Þannig er þetta verkefni mikilvæg aðgerð í baráttunni við loftlagsbreytingar.

Skýrsla Verkís um Endurheimt votlendis í norðanverðum Úlfarsárdal í Reykjavík.

Verkís kolefnisjafnar með endurheimt votlendis
Endurheimt votlendis í Úlfarsárdal