25/05/2021

Fjarfundir í sýndarveruleika reynast vel við hönnunarrýni og samræmingu

Fundur í sýndarveruleika_1
Fundur í sýndarveruleika

Í vor var nýr sýndarveruleikabúnaður tekinn í notkun hjá Verkís. Um er að ræða nýjan hugbúnað og sýndarveruleikagleraugu sem tengjast þráðlausu neti en ekki tölvu með snúru líkt og búnaðurinn sem Verkís notaði áður.

Þannig er hægt að bjóða upp fjarfundi með hönnuðum og verkkaupa þar sem allir þátttakendur geta gengið um líkanið á sama tíma í stað þess að aðeins einn geti skoðað líkanið í einu og hinir fylgist óvirkir með.

Búið er að prófa búnaðinn innanhúss og nú er hafin vinna við fyrsta verkefnið þar sem þessi búnaður er nýttur. Um er að ræða hönnun fjölbýlishúss í Úlfarsárdal. Þegar er búið að halda nokkra samræmingarfundi í búnaðinum og þótti verkkaupa og hönnuðum m.a. gagnlegt að geta gengið um húsið og fá þannig m.a. tilfinningu fyrir því hvar rofar eru eða ættu að vera.

Verkkaupi er ánægður með búnaðinn og skoðar líkanið með sýndarveruleikagleraugunum sínum frekar en að skoða teikningarnar. Hann er mjög ánægður með þessa framför sem hann segir að gefi honum góða innsýn inn í verkefnið og auðveldi samstarf. Starfsfólk Verkís er spennt að nýta sér þessa spennandi nýjung við störf sín.

Með þessum búnaði geta hönnuðir, sem staðsettir eru á mismunandi stöðum, gengið um líkön og rætt mögulegar lausnir og vandamál. Tími sparast við að fara á milli staða til að funda og ætla má að þetta muni minnka fjarlægð við erlenda markaði og ná þannig betur til erlendra viðskiptavina og samstarfsaðila. Ætla má að fjarvinna og fjarfundir verði áfram hluti af vinnunni þegar við höfum náð tökum á heimsfaraldrinum og þá muni búnaður sem þessi koma áfram að miklu gagni.

Á föstudaginn heldur Davíð Friðgeirsson, BIM ráðgjafi og byggingarfræðingur, erindi fyrir hönd Verkís á málstofunni Nýsköpun í mannvirkjagerð – framkvæmdir til framtíðar, sem er hluti af Nýsköpunarviku, og þar mun hann meðal annars fjalla um þessa spennandi nýjung.

Heimsmarkmið

Fundur í sýndarveruleika_1
Fundur í sýndarveruleika