04/03/2021

Fjórar leiðir til að bæta ofanflóðavarnir á Flateyri

Flateyri-februar
Flateyri

Fjórar leiðir til að bæta ofanflóðavarnir á Flateyri. Verkfræðistofan Verkís hefur lagt til fjórar tillögur til þess að bæta varnir gegn ofanflóðum á Flateyri. Tillögurnar eru lagðar fram eftir snjóflóð sem féllu í Önundarfirði og Súgandafirði í janúar í fyrra. Þetta eru fyrstu aðgerðirnar í mun stærri aðgerðapakka sem lagður verður fram í vor.

Í fyrsta lagi er lagt til að styrkja efstu húsin í bænum, m.a. með því að styrkja glugga- og dyraop sem snúa upp í hlíð. Þetta á við um steypt hús en aðrar leiðir eru lagðar til fyrir hús úr timbri, s.s. veggir. Að mati Verkís yrði ávinningur þessara aðgerða ótvíræður.

Í öðru lagi er lagt til að prófað yrði að setja snjósöfnunargrindur upp á Eyrarfjall fyrir ofan Innra-Bæjargil og Skollahvilft, en þaðan koma snjóflóðin sem falla í átt að Flateyri. Með því á að minnka snjómagnið sem safnast þar upp og minnka líkurnar á því að flóð falli. Þetta hefur verið prófað á Patreksfirði. Ávinningurinn af þessari aðgerð gæti orðið mikill en talsverð óvissa er um virkni grinda.

Í þriðja lagi leggur Verkís til að hreinsa og víkka núverandi flóðrása við Innra-Bæjargilsgarð en það á að auka það snjómagn sem nyrðri leiðigarðurinn getur leitt fram hjá þorpinu. Ávinningurinn er talinn nokkur en þó takmarkaður.

Í fjórða lagi er lagt til að gerðar verði jarðvegsrannsóknir í höfninni til þess að meta undirstöður fyrir mögulegan hafnargarð til þess að verja hafnarsvæðið. Í fyrra leiddi leiðigarðurinn snjóflóðið fram hjá þorpinu og beint í höfnina með þeim afleiðingum að sex bátar sukku. Varnargarður við höfnina myndi hamla því að slíkt endurtæki sig og er ávinningurinn talinn ótvíræður.

Frétt RÚV: Fjórir kostir til að efla ofanflóðavarnir á Flateyri 

Bæjarins besta: Flateyri: Tillögur um frekari ofanflóðavarnir kynntar 

Flateyri-februar
Flateyri