03/04/2018

Flöskuskeytið fannst við Breiðdalsvík

Breiðdalsvík
Breiðdalsvík

Sigrún Sigurpálsdóttir, fjögurra barna móðir og þekktur þrifasnappari á Egilsstöðum, fann flöskuskeyti Verkís með vínylplötu Ásgeirs Trausta við Breiðdalsvík á Austurlandi í gær.

Hilmar Sigurpálsson, bróðir Sigrúnar, hafði fylgst grannt með ferðum skeytisins og sá að það var komið upp á land. Bað hann Sigrúnu um að skjótast og sækja það og fór hún ásamt börnum sínum.

„Við ákváðum að taka okkur sunnudagsbíltúr og sækja flöskuskeytið. Við sáum það vel frá veginum. Það var í um 100 metra fjarlægð,“ sagði Sigrún í samtali við RÚV.

Sigrún og börnin fóru heim með skeytið og þá var komið að því að opna það. Inni í skeytinu fundu þau vínylplötu með lögunum Hljóða nótt og Hærra. Fjöldi fólks fylgist með Sigrúnu dag hvern í gegnum Snapchat (sigrunsigurpals) og sýndi hún vel frá öllu ferlinu í gær.

Ásgeir Trausti tók plötuna upp síðasta sumar og var hún hluti af verkefninu Beint á vínyl, þar sem hann tók upp tónlist á sjö tommu vínylplötur sleitulaust í einn sólarhring í beinni útsendingu á RÚV. Á þessum sólarhring urðu til 30 vínylplötur. Upptökurnar, sem er að finna á hverri plötu, eru hvergi annars staðar til.

Kortið hér fyrir neðan sýnir ferðalag skeytisins en það lagði um 5.000 kílómetra að baki.

Album in a Bottle er samstarfsverkefni Ásgeirs Trausta, Verkís, Ævars Vísindamanns og KrakkaRÚV.

Breiðdalsvík
Breiðdalsvík