25/09/2020

Framkvæmdir virtust ekki trufla fugla við Klettagarða

Framkvæmdir virtust ekki trufla fugla við Klettagarða
Laugarnes

Framkvæmdir virtust ekki trufla fugla við Klettagarða. Framkvæmdir við gerð landfyllingar við Klettagarða í Reykjavík virtust ekki trufla fugla á svæðinu. Breytingar sem urðu á fuglalífi á milli mánaða má rekja til eðlilegra árstíðabreytinga. Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði sem Verkís tók saman eftir að hafa séð um vöktun fuglalífs og talningu fugla mánaðarlega fyrri hluta árs fyrir Faxaflóahafnir.

Framkvæmdasvæðið sem um ræðir er í Laugarnesi og er framhald landfyllingar sem er austan við það. Fjaran sem fer undir landfyllingu er að mestu manngerð fyrir. Ekki er því um að ræða að varpbúsvæði fugla fari undir landfyllingu og rask af hennar völdum, heldur mun eitthvað af svæðum sem nýtt eru til fæðuöflunar fara undir fyllinguna

Nokkra breytingu má sjá á fuglalífi við ströndina eftir talningardögum. Sem dæmi má taka var áberandi mikið af af skörfum í vetrarfuglatalningunni um áramótin og aftur í febrúar. Skörfum hafði svo snarfækkað í mars og eftir það. Líklegt er að í desember til febrúar hafi verið nóg æti handa þeim þarna, einhver fiskigengd. Í febrúar voru þeir greinilega að eltast við æti og mikil hreyfing á þeim. Í mars hafa skarfarnir horfið og eru þá farnir að vitja varpstöðvanna um það leyti.

„Meðan talningar fóru fram var verið að vinna við landfyllinguna og komu vörubílar með grjót og efni sem þeir sturtuðu og vinnuvélar ýttu og færðu efnið til. Það var greinilegt að fuglarnir voru orðnir vanir framkvæmdunum því skarpar og máfar sem sátu í skerinu norður af landfyllingunni kipptu sér ekkert upp við það þótt vörubíll sturtaði grjóti skammt frá með tilheyrandi látum,“ segir í skýrslu Verkís um vöktuninni og talningunni.

 

Heimsmarkmið

Framkvæmdir virtust ekki trufla fugla við Klettagarða
Laugarnes