26/06/2025

Frumdrög að deiliskipulagi fyrir innri hluta Tunguhverfis kynnt

Vinna stendur yfir við nýtt íbúðarhverfi á Ísafirði

Verkís vinnur að gerð deiliskipulags fyrir innri hluta Tunguhverfis í Skutulsfirði fyrir Ísafjarðarbæ. Um er að ræða spennandi þróunarverkefni þar sem lögð er rík áhersla á sjálfbæra uppbyggingu og vistvænt borgarumhverfi í nánum tengslum við náttúru og útivistarsvæði.

Frumdrög kynnt – greiningarvinna í gangi

Í apríl 2025 voru kynnt fyrstu frumdrög að skipulaginu þar sem markmið og meginhugmyndir verkefnisins voru settar fram. Þar koma fram fyrstu hugmyndir að skipulagi svæðisins og möguleg útfærsla þess. Skipulagstillaga liggur þó ekki fyrir og er verkefnið enn á vinnslustigi.

Í þessu stigi verkefnisins hefur verið ráðist í fjölbreytta og gagnreynda greiningarvinnu sem styður við ákvarðanatöku í hönnunarferlinu. Þar má nefna fornleifaskráningu, vindgreiningu, sólar- og skuggagreiningu, drónamælingar, úttekt á byggingarhæfi og flóðamat í Tunguá. Veðurvaktin vann greininguna á vindálagi, en aðrar greiningar voru unnar af Verkís. Markmiðið er að móta vandað og aðlaðandi íbúðarhverfi með skýrum tengslum við náttúru, útivist og samfélag.

Sjálfbær og fjölbreytt byggð

Frumdrögin gera ráð fyrir fjölbreyttri og lágreistri íbúðabyggð – þar sem einbýli, parhús, raðhús og minni fjölbýli blandast saman. Lögð er áhersla á græn svæði, leik- og íþróttasvæði, vistvænar samgöngur og tengingar við útivistarsvæði í Tungudal, svo sem golfvöll og gönguleiðir. Blágrænar ofanvatnslausnir eru mikilvægur hluti hönnunarinnar og stuðla að heilbrigðu og sjálfbæru umhverfi.

Skipulagsferli fram undan

Verkefnið er hluti af markvissri stefnu Ísafjarðarbæjar til að mæta þörf fyrir fleiri íbúðarlóðir í Skutulsfirði. Næstu skref í verkefninu eru útfærsla á skipulagstillögu í samræmi við niðurstöður greininga og frekara samráði við íbúa og hagaðila. Gert er ráð fyrir að deiliskipulag verði auglýst síðar á árinu 2025 og taki gildi árið 2026.

Verkís leiðandi í þróun samfélagslegra lausna

Verkefnið í Tunguhverfi endurspeglar þá stefnu Verkís að vinna að verkefnum sem styðja við sjálfbæra þróun og lífsgæði fólks í nánu samhengi við náttúru og samfélag. Verkís sinnir allri verkfræðilegri skipulagsgerð, umhverfismati, forathugunum og kynningarvinnu í nánu samstarfi við Ísafjarðarbæ.