16/04/2020

Gæsirnar hans Arnórs farnar að skila sér til landsins

Gæsirnar hans Arnórs
Arnór gæs merkingar

Gæsirnar hans Arnórs. Dýravistfræðingurinn Arnór Þórir Sigfússon byrjar dag hvern á því að huga að fuglunum sínum. Hann er þó hvorki bóndi né með páfagauka í stofunni heima, heldur einlægur áhugamaður um atferli gæsa og starfar hjá Verkís. Síðustu fjögur ár hefur hann merkt gæsir og fest á þær senda sem skila reglulega merkjum. Þannig getur Arnór, sem og allir aðrir, fylgst með ferðum þeirra í gegnum netið. Nú er sumarið framundan og gæsirnar farnar á tínast til landsins.

Tilgangur merkinganna er að fylgjast með ferðum grágæsa, hvar farleiðir þeirra liggja og hvar þær eyða vetrinum. Auk þess að skrásetja ferðir gæsanna þá fást upplýsingar um hvernig gróðurlendi þær sækja á mismunandi tímum árs og hvert þær leita í náttstað.

Eins og gengur og gerist hafa örlög gæsanna sem Arnór hefur merkt verið misjöfn. Sumar hafa lifað lengur en aðrar og jafnvel fundið sér lífsförunaut og notið lífsins í hópi annarra grágæsa.

Ein gæsin flaug upp á Brúarjökul og drapst þar og líf annarrar lauk eftir að hún flaug á rafmagnslínu. Sumar gæsanna hafa orðið fyrir barðinu á veiðimönnum. Þannig hafa sumir sendanna verið á nokkrum gæsum en sendarnir eru kostaðir af styrktaraðilum sem fá að velja nafn á gæsina sína.

Fimm gæsir senda frá sér merki í dag en talið er að sú fjórða sé á lífi en sendir hennar sé bilaður. Tvær gæsanna voru skotnar af veiðimönnum á síðasta ári. Hér er hægt að fylgjast með ferðum gæsanna. 

Sjókallinn leit á dagatalið og hélt heim til Íslands

Grágæsin Sjókallinn mætti til Norðfjarðar þann 7. apríl sl. eftir að hafa lagt af stað frá vetrarstöðvum sínum á Orkneyjum tveimur dögum áður, 5. apríl. Það vill svo skemmtilega til að þetta er annað árið í röð sem hann leggur af stað og kemur til Íslands á þessum dögum.

„Það er eins og hann hafi litið á dagatalið og séð að núna væri kominn tími til að halda í vorið á Íslandi,“ segir Arnór Þórir.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist því grágæsin Skúli, sem einnig átti vetrarstöðvar sínar á Orkneyjum, kom til landsins vorin 2017 og 2018 og lagði hann af stað 18. apríl til varpstöðvanna við Egilsstaðaflugvöll bæði árin.

Líkt og síðastliðna tvo vetur hefur Sjókallinn haft vetursetu á stærstu eyju Orkneyja, Mainland Orkney. Hann náttar yfirleitt á eynni Wyre (Vigur) og ver svo dögunum á beit á túnum og ökrum nærri Tingwall (Þingvellir). Sjókallinn var 36 klukkustundir á leiðinni til Íslands, með 18 klukkustunda stoppi á Suðurey í Færeyjum.

Lenti í ósum Öxarár að morgni föstudagsins langa

Grágæsin Þór kom heim í Þingvallaþjóðgarð að morgni föstudagsins langa, eða 10. apríl. Hann hóf sig til flugs frá vetrarstöðvum sínum á Orkneyjum eftir kl. 3 að nóttu þann 7. apríl. Hann gerði fyrst hlé á ferð sinni í Færeyjum eftir níu klukkustunda ferð, á Suðurey á nákvæmlega sama stað og Sjókallinn tveimur dögum áður.

Eftir að hafa hvílt sig í tólf klukkustundir lagði Þór aftur í hann. Næsti áfangastaður var Ísland, nánar tiltekið Hornafjörður, og lenti hann þar að kvöldi 8. apríl. Þar stoppaði hann til miðnættis og eftir nokkuð ferðalag um Suðurlandið lenti hann í ósum Öxarár kl. 8 að morgni á föstudaginn langa.

Þór er önnur af tveimur gæsum sem merkt var á Suðurlandi síðastliðið sumar en hin er Stefnir. Sá síðarnefndi varði vetrinum á Íslandi og er eina grágæsin sem Verkís hefur merkt sem hefur gert það.

Talið er að undanfarna áratugi hafi grágæsum sem verja vetrinum á Íslandi fjölgað. Um leið hefur grágæsum sem hafa vetursetu á Orkneyjum fjölgað og er talið að allt að 80% íslenskra grágæsa hafi þar vetursetu. Áður fóru þær lengra suður á meginland Skotlands en gera það í minna mæli í dag. Þetta er talið vera vegna mildari vetra og þekkist hjá fleiri tegundum fugla, að þeir leiti ekki eins langt suður á bóginn og áður.

Taldi víst að Stefnir væri bráðfeigur

Stefnir hefur að mestu verið í Landeyjum og Þykkvabæ í sumar. Hann kom til Landeyja í lok september eftir að hafa stoppað á Skeiðunum í tvær vikur.

„Síðastliðið haust þegar hann fór á Skeiðin og síðan í Landeyjar taldi ég víst að hann væri bráðfeigur því segja má að hann hafi skellt sér á mestu gæsaveiðislóðir landsins. En það kom í ljós að Stefnir kunni að bjarga sér og lifði því veturinn af. Veiðimenn eru aðallega við veiðar frá fyrstu skímu og fram eftir morgni. Stefnir virðist átta sig á þessari hegðun veiðimanna og eyddi morgninum aðallega í mýrum og móum en fór ekki í ræktarlandið, kornakra og tún, fyrr en eftir hádegið þegar flestir veiðimenn eru hættir,“ segir Arnór Þórir.

Sendarnir eru knúnir áfram með sólarrafhlöðu og þegar dagurinn fer að styttast fækkar Arnór skiptunum sem þeir senda frá sér merki til að spara rafhlöðuna. Í lok nóvember á síðasta ári og fram í febrúar sl. hætti Stefnir að senda frá sér merki. Þegar hann fór að láta heyra frá sér í febrúar komu öll hnit síðustu mánaða inn á kortið og hafði sendirinn því safnað þeim, þrátt fyrir að hann gæti ekki sent þau frá sér vegna skorti á rafhlöðu yfir dimmasta árstímann.

Síðustu vikur hefur Stefnir haldið til í Þykkvabæ, líklega í hópi 500-700 grágæsa sem þar hafa verið að sögn Guðna Sigvaldasonar, bónda í Borgartúni. Hann er núna kominn að Selfossi, væntanlega á leið sinni heim á Þingvelli þar sem hann mun hitta nágranna sinn Þór.

Gæsin Arnór komst til Skotlands síðastliðið haust en var skotinn í byrjun desember. Gæsin Jón Sigurðsson komst einnig til Skotlands en sendirinn hætti að senda út í lok nóvember. Reglulega hefur sést til hans austan við Glasgow í vetur og skilar hann sér vonandi á Blönduós með vorinu þar sem hann var merktur ásamt Arnóri sl. sumar. Gæsin Jónas í Hlað var einnig merktur á Blönduósi sl. sumar en var skotinn í Langadal um haustið. Tvær gæsir eru enn á Orkneyjum, Anna úr Svarfaðardal og Unglingurinn frá Norðfirði og skila þær sér vonandi til landsins á næstunni.

Verkefnið unnið í samstarfi við Náttúrustofu Austurlands og Wildfowl and Wetland Trust.

Gæsirnar hans Arnórs
Arnór gæs merkingar