26/07/2019

Gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi – vinna miðar vel

Gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi
Gasgerðarstöð Jarðgerðarstöð

Gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi . Hætt verður að urða heimilissorp þegar ný gas- og jarðgerðarstöð Sorpu verður tekin í notkun snemma á næsta ári. Stöðin markar tímamót í sögu úrgangs á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt verður að því að endurvinna allt heimilissorp sem fellur til á höfuðborgarsvæðinu

Verkinu miðar vel áfram og er steypuvinnan langt komin, búið er að setja upp límtré og klæðninguna, sem eru krosslímdar timburplötur. Verkís annast framkvæmdaeftirlit.

Fjallað var um nýju stöðina í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Rætt var við Bjarna Gný Hjarðar, yfirverkfræðing hjá Sorpu sem sagði stöðina vera algera byltingu og ánægjulegt skref. „Úrgangur sem er núna í gráu tunnunni má kalla restarafgang. Innihaldið í gráu tunnunni á að fara í þessa stöð og í vinnsluferli sem flokkar það niður í viðeigandi strauma í vélum,“ sagði Bjarni.

Það sem er lífrænt, eins og matarleifarnar og jafnvel bleyjurnar, fer inn í gas- og jarðgerðarstöðina. Út úr henni kemur metan, til dæmis á strætisvagna eða einkabílinn, og molta eða jarðvegsbætir til að græða upp landið. Markmiðið er að breyta því plasti sem verður afgangs í dísilolíu og þannig verður allt í gráu tunnunni endurunnið.

Fyrsta skóflustungan var tekin í ágúst á síðasta ári. Gas- og jarðgerðarstöðin mun taka til vinnslu allt að 36.000 tonnum af heimilisúrgangi á ári. Gólfflötur byggingar er samtals áætlaður um 12.000m2. Stöðin verður reist á svæði Sorpu í Álfsnesi.

Gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi
Gasgerðarstöð Jarðgerðarstöð