25/05/2018

Hætta á gróðureldum hefur aukist á undanförnum árum

Hætta á gróðureldum
Gróðureldar

Hætta á gróðureldum hefur aukist á undanförnum árum. Stýrihópur um forvarnaaðgerðir gegn gróðureldum á Íslandi kynnti í gær nýjan bækling og vefsíðu þar sem lögð er áhersla á forvarnir og fyrstu viðbrögð við gróðureldum. Verkís á tvo fulltrúa í hópnum, Dóru Hjálmarsdóttur, sérfræðing í öryggismálum og Hauk Þór Haraldsson, viðskiptastjóra.

Hætta á gróðureldum hefur aukist hér á landi á undanförnum árum samfara aukinni skógrækt og minnkandi sauðfjárbeit. Sumarhúsabyggðir eru sérstaklega viðkvæmar að mati sérfræðings en þar liggur trjágróður oft þétt upp við hús. 

Pétur Pétursson, formaður Félags slökkviliðsstjóra, segir að hættan á gróðureldum hafi aukist á undanförnum árum samhliða aukinni trjárækt og minnkandi sauðfjárbeit.

„Eðlilega með aukinni trjárækt, þá myndast meiri eldsmatur ef upp kemur eldur, og svo má nefna líka að sauðfjárbeit hefur minnkað verulega, sérstaklega á láglendi en ef einhvers konar skepnur bíta í grasið, þar með verður ekki sina og þá minnkar hættan á gróðureldum,“ segir Pétur. Sumarhúsabyggðir eru sérstaklega viðkvæmar fyrir þessari hættu.

Dóra Hjálmarsdóttir, sérfræðingur í öryggismálum hjá Verkís, segir að sumarhúsasvæði séu sérstaklega viðkvæm fyrir þessari þróun en þar liggur trjágróður oft þétt upp við og jafnvel undir hús.

„Þéttleiki gróðurs á sumarhúsasvæðum hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og maður sér það bara hver ársvöxtur trjánna er á hverju ári. Það er virkilega kominn tími til þess að við hugum að þessum málum,“ segir Dóra.

Í upphafi voru sumarhúsasvæðin mest á bersvæði en eru nú mörg hver í þéttu kjarri. Mikilvægt er að vitundarvakning verði um þessa stöðu meðal einstaklinga, félagasamtaka, landeigenda og skipulagsaðila og að hugað verði að skipulagi svæða með gróðurelda í huga. Dóra ritaði lýsingu fyrir sumarhús í bæklingnum og ritstýrði greinargerð stýrihópsins.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðunni grodureldar.is

Hætta á gróðureldum
Gróðureldar