24/01/2018

Heiðagæsin Áslaug flug á raflínu

Heiðagæsin Áslaug
Gæsin Áslaug

Heiðagæsin Áslaug, ein þeirra fimm gæsa sem voru merktar á Vesturöræfum í sumar, er öll. Hún komst til vetrarstöðvanna á Bretlandi í haust, líkt og hinar fjórar gæsirnar og hafði það gott þar. Áslaug varð aftur á móti fyrir því óláni að fljúga á raflínu í Skotlandi fyrr í þessum mánuði og drapst við það.

Síðastliðið sumar stóðu Verkís, Náttúrustofa Austurlands og WWT á Bretlandi fyrir gæsamerkingum á Norður-, Austur- og Suðausturlandi. Aðaltilgangur merkinganna var að setja GSM/GPS-senditæki á 25 heiðagæsir og þrjár grágæsir til að kortleggja ferðir þeirra og nýtingu á landi. Auk þess fengu aðrar gæsir litplastmerki, ýmis á fót eða háls, sem hægt er að lesa á úr fjarlægð.

Heiðagæsirnar voru merktar í Eyvindarstaðaheiði, í Skagafirði, á Jökuldalsheiði og á Vesturöræfum. Náttúrustofan setti fimm senda á kvenfugla á Vesturöræfum sem fylgst verður með næstu tvö árin eða meðan líftími senditækjanna varir. Þeim var gefið nafn og bókstafur settur á hvert merki sem vísar til heitis. Þær fengu nöfnin Kristín, Rán, Guðrún, Elín og Áslaug.

Grágæsir voru merktar á Blönduósi, í Skagafirði auk Vatnshlíðarvatns og á Norðfirði. Helsingjar voru merktir austan við Jökulsárlón á Suðausturlandi. Helsingjarnir fengu litplastmerki á annan fótinn og stálmerki á hinn.

Heiðagæsin Áslaug
Gæsin Áslaug