17/04/2018

Hljóðvistarráðstefna í Reykjavík

Hljóðvistarráðstefna í Reykjavík
Harpa

Hljóðvistarráðstefna í Reykjavík, þessa dagana fer ráðstefna BNAM, Baltic-Nordic Acoustics Meeting, um hljóðvistarmál fram í Hörpu. Hana sækja fagaðilar, nemendur og sérfræðingar á sviði hljóðtengdra mála. Starfsfólk Verkís tekur virkan þátt í ráðstefnunni, meðal annars með því að flytja erindi og sitja í skipulagsnefnd ráðstefnunnar.

Verkís er með tvö erindi á ráðstefnunni. Þau heyrðu bæði undir vinnustofu, sem haldin var í gær, þar sem fjallað var um reglugerðir um hljóðvist og gæðaflokkun húsnæðis með tilliti til hljóðvistar.

Í fyrra erindinu var þeirri spurningu varpað fram hvort kröfur um hljóðvist í nýju íbúðarhúsnæði séu orðnar of strangar og færð rök fyrir því að svo sé ekki. Tekin voru fjölbreytt dæmi um mælingar sem Verkís hefur gert eftir kvartanir íbúa. Steindór Guðmundsson, byggingarverkfræðingur og hljóðverkfræðingur á Byggingarsviði Verkís, flutti erindið.

Í seinna erindinu var fjallað um endurbætur á hljóðdeyfingu í matsölum í íslenskum grunnskólum og tekið dæmi um nýlegt verkefni sem Verkís vann fyrir Reykjavíkurborg. Gert var tölvulíkan af salnum, sem upphaflega var fjölnotasalur með lítilli hljóðdeyfingu, og mismunandi hljóðdeyfing prófuð í samráði við arkitektana, þar til ásættanleg lausn fannst. Sú lausn var síðan framkvæmd og hljóðvistin í salnum er nú mjög góð fyrir matsal. Ragnar Viðarsson, hljóðverkfræðingur á Byggingarsviði Verkís, samdi erindið en Steindór flutti það í fjarveru Ragnars.

Arnheiður Bjarnadóttir, hljóðverkfræðingur á Byggingarsviði Verkís, sat í skipulagsnefnd ráðstefnunnar fyrir hönd Verkís.

Þátttakendur á ráðstefnunni eru um 150. Ráðstefnan hófst á sunnudag og lýkur á morgun, miðvikudaginn 18. apríl.

Hljóðvistarráðstefna í Reykjavík
Harpa